Fjárhagsáætlun samþykkt samhljóða

desember 13, 2013
Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2014 sýnir að rekstur sveitarfélagsins er traustur. Þar kemur fram að rekstarniðurstaða er jákvæð, skuldir halda áfram að lækka og sköttum og þjónustugjöldum er að mestu haldið óbreyttum. Álagningaprósenta fasteignaskatts og lóðaleigu er óbreytt, sömuleiðis öll gjöld er tengjast félagsþjónustu, grunn-,leik- og tónlistarskólum sem og æskulýðs- og tómstundamálum. Auknu fjármagni verður varið til viðhalds eigna, gatna og gangstétta og áætlað er að verja um 150 milljónum í nýjar framkvæmdir og fjárfestingar. Þetta kemur fram í fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2014 sem samþykkt var samhljóða við síðari umræðu þann 12. desember s.l.
Á sama fundi var samþykkt langtímaáætlun fyrir árin 2015-2017. Jafnvægi verður í rekstri sveitarfélagsins samkvæmt langtímaáætlun og óverulegar breytingar verða á skuldastöðu þrátt fyrir að Borgarbyggð muni verja 400 milljónum til að endurbæta og byggja við húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi.
 
Helstu kennitölur í áætlun ársins 2014 eru;
 
· Heildartekjur sveitarsjóðs Borgarbyggðar og B-hluta fyrirtækja verða 2.967 milljónir króna á árinu 2014 en rekstrarútgjöld án fjármagnsliða verða 2.716 milljónir kr. Framlegð sveitarfélagsins er því um 13%. Fjármagnsgjöld er áætluð 242 milljónir kr.
· Samantekin rekstrarniðurstaða Borgarbyggðar á árinu 2013 er því jákvæð um 9 milljónir kr.
· Veltufé frá rekstri er 221 milljónir kr. eða 7,4% af rekstrartekjum á árinu 2013.
· Heildarskuldir og skuldbindingar eru áætlaðar 4.559 milljónir kr. Afborganir langtímalána nema 225 milljónum og skuldir lækka um 63 milljónir á milli ára. Eigið fé sveitarfélagsins verður 1.532 milljónir kr. eða 25%.
· Fjárfestingar verða 150 milljónir kr. á árinu. Þær verða fjármagnaðar með handbæru fé og langtímaláni að upphæð 70 milljónir kr. Eignir sveitarfélagsins verða í árslok 2014 að andvirði 6.094 milljónir kr.
· Skuldaviðmið Borgarbyggðar verður samkvæmt áætlun 128% í árslok 2014. Samkvæmt sveitarstjórnarlögum eiga skuldir sveitarfélaga að vera undir 150% í hlutfalli af tekjum.
Nánari upplýsingar veitir Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri í síma 433-7100.

Share: