Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar – fyrri umræða.

nóvember 10, 2017
Featured image for “Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar – fyrri umræða.”

Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar var lögð fram til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar þann 9. nóvember sl. Fjárhagsáætlunin byggir á þeim trausta grunni sem hefur verið lagður með margvíslegum rekstrarlegum á síðustu árum.

Með þeirri fjárhagsáætlun fyrir Borgarbyggð sem lögð er fram til fyrri umræðu er haldið áfram á þeirri braut sem mörkuð hefur verið eða að auka stöðugleika í fjármálum sveitarfélagsins, styrkja rekstur þess og fjárfestingargetu ásamt því að skapa svigrúm til aukinnar uppbyggingar.

 

  • Þann 1. október sl. bjuggu í Borgarbyggð 3.700 manns. Íbúum sveitarfélagsins hefur farið fjölgandi jafnt og þétt á síðustu árum. Starfsmenn Borgarbyggðar eru nálægt 300.

 

  • Heildartekjur samstæðu A+B hluta á árinu 2018 eru áætlaðar 3.860 m.kr. Heildargjöld samstæðu eru áætluð 3.607 m.kr.

 

  • Hrein fjármagnsgjöld samstæðu eru áætluð 118 m.kr. og 61 m.kr. hjá A-hluta. Það er lækkun um 6 m.kr. frá áætlun fyrra árs.

 

  • Rekstrarafgangur samstæðu A+B hluta er áætlaður 134,5 m.kr. en af A-hluta 152,2 m.kr.

 

  • Veltufé frá rekstri árið 2018 í samstæðu A+B hluta áætlað 400 m.kr. en 369 m.kr. ef litið er til A-hluta.

 

  • Veltufé frá rekstri í hlutfalli við tekjur verður 10,7% í A-hluta og 10,4% í A+B samstæðu hluta. Samsvarandi tölur frá árinu 2017 voru 8,3% og 8,5%.

 

  • Útsvar verður 14,52%, Álagning í A-hluta fasteignaskatts verður 0,45% af fasteignamati og lækkar úr 0,47% frá fyrra ári. Álagning í C-hluta fasteignaskatts verður 1,55% en þar er hámarksálagning 1,65%.

 

  • Gert er ráð fyrir nettófjárfestingu í varanlegum rekstrarfjármunum að fjárhæð 492 m.kr. í samstæðuhluta.

 

  • Helstu fjárfestingar eru fyrsti hluti viðbyggingar við Grunnskólann í Borgarnesi, hafin verður bygging leikskóla á Kleppjárnsreykjum og lagning ljósleiðara um dreifðar byggðir í héraðinu verður hafin af fullum krafti að því tilskyldu að styrkur fáist til verkefnisins úr Fjarskiptasjóði.

 

  • Afborganir langtímalána eru 244 m.kr. fyrir samstæðu A+B hluta en 196 m.kr. fyrir A-hluta.

 

  • Ekki er gert ráð fyrir að taka ný langtímalán á árinu. Áætlað er að í árslok 2018 verði handbært fé um 142 m.kr. fyrir samstæðuna og 55 m.kr. fyrir A-hlutann.

Share: