Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2001

janúar 24, 2001

Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2001 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar þann 18. janúar s.l.

Samkvæmt fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að skatttekjur ársins 2001 nemi 539 milljónum króna sem er um 10% hækkun á milli ára. Auk þess eru ýmsar þjónustutekjur áætlaðar um 150 milljónir króna. Útsvarsprósenta hækkaði um áramótin úr 12,04% í 12,70% í samræmi við breytingu á lögum í framhaldi af samkomulagi ríkis og sveitarfélaga. Á móti hefur ríkið lækkað tekjuskattsprósentuna um 0,33%.
Kostnaður við rekstur málaflokka að frádregnum þjónustutekjum nemur 457 milljónum króna. Þar af eru lagðar 215 milljónir króna eða 40% af skatttekjum til fræðslumála. Til félagsþjónustu, þar með taldir leikskólar, fara um 75 milljónir króna. Framlegð fyrir fjármagnsliði nemur samkvæmt áætluninni 81 milljón króna sem er um 15% af skatttekjum. Auk fyrri rekstrarþátta í starfsemi Borgarbyggðar er í fjárhagsáætlun ársins 2001 gert ráð fyrir að tekin verði í notkun ný leikskóladeild fyrir 24 börn í Borgarnesi.
Fjárhagsáætlunin einkennist af miklum framkvæmdum á árinu en alls eru þær áætlaðar um 220 milljónir króna. Þær helstu eru annars vegar viðbygging við Grunnskólann í Borgarnesi en þær framkvæmdir eru þegar eru hafnar. Áformað er að taka í notkun sex nýjar kennslustofur við skólann næsta haust en þar með verður skólinn einsetinn. Hins vegar koma til miklar gatnagerðarframkvæmdir í Borgarnesi, bæði vegna íbúðarlóða og vegna atvinnulóða. Alls er gert ráð fyrir að framkvæmdir við götur, lagnir og holræsagerð nemi um 70 milljónum króna á árinu. Hafnar verða framkvæmdir við nýjar götur undir íbúðabyggð í svokölluðu Bjargslandi, en á fundi bæjarstjórnar voru samþykkt nöfn á alls fjórar nýjar götur, þ.e. Stöðulsholt, Stekkjarholt, Kvíaholt og Smalaholt. Í fjárhagsáætlun ársins 2001 er að finna þau nýmæli að gert er ráð fyrir framkvæmdum á vegum Borgarbyggðar á Bifröst en áformað er að sveitarfélagið komi þar að uppbyggingu og rekstri í þjónustu við íbúa að einhverju leyti.
Samkvæmt fjárhagsáætlun eru lántökur á árinu 2001 áætlaðar um 190 milljónir króna en að afborganir eldri lána nemi um 50 milljónum króna. Gert er ráð fyrir að langtímaskuldir bæjarsjóðs nemi um 590 milljónum króna í árslok eða um 236 þúsund krónur á íbúa.


Share: