Fjárhagsáætlun Borgarbyggðar – fréttatilkynning

desember 16, 2014
Seinni umræða um fjárhagsáætlun Borgarbyggðar fyrir árið 2015 og þriggja ára áætlun 2016-2018 fór fram í Ráðhúsi Borgarbyggðar 15. desember sl.
 
Sveitarfélagið stendur frammi fyrir miklum launahækkunum og kröfu um rekstrarjafnvægi vegna halla í rekstri frá árinu 2013. Fjárhagsáætlun er lögð fram með 4,5 miljón króna afgangi af rekstri. Rekstrarjafnvægi næst ekki á þriggja ára grunni eins og sveitarstjórnarlög gera ráð fyrir. Eftirlitsnefnd með fjárlögum sveitarfélaga verður gert kunnugt um þá stöðu. Þegar hefur verið hafin vinna við að greina hagræðingarmöguleika í rekstri og heldur sú vinna áfram á árinu 2015.
 
Árangur hefur náðst varðandi lækkun skulda á undanförnum árum og verður það haft að leiðarljósi áfram að halda skuldaviðmiði Borgarbyggðar vel undir 150% markinu. Lagðar eru til hækkanir á fasteignaskatti úr 0,36% í 0,49% á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði úr 1,5% í 1,65%. Gjaldskrá leikskóla verður óbreytt. Samstaða hefur verið í sveitarstjórn í vinnu við fjárhagsáætlun um að standa vörð um grunnþjónustuna og halda áfram að bjóða uppá góða þjónustu við íbúa sveitarfélagsins.
 
Framlegð frá rekstri verður 11,2% og veltufé frá rekstri er áætlað 7,9%. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að afborganir skulda verði 223 m.kr. og gert ráð fyrir 90 m.kr. í nýja lántöku, skuldir lækka því sem nemur 133 m.kr.
Á árinu 2015 verður 102 milljónum varið til framkvæmda og fjárfestinga. Endurbætur á skólahúsnæði í Borgarnesi standa fyrir dyrum og unnið verður að undirbúningi þess verkefnis á árinu , auk þess sem leysa þarf húsnæðisþörf leikskólans Hnoðrabóls.
 
Þrátt fyrir hagræðingu og aðhald í rekstri Borgarbyggðar þá er bjart yfir samfélaginu. Mörg atvinnutengd verkefni eru í farvatninu í héraðinu og næsta nágrenni. Því þarf að vera eitt af höfuðverkefnum sveitarstjórnar að skapa áfram þá umgjörð í þjónustu sinni að áfram sé Borgarbyggð eftirsóttur búsetukostur fyrir fjölskyldur og fyrirtæki.
 
Starfsmenn Borgarbyggðar eiga þakkir skildar fyrir þá miklu vinnu sem liggur í framlagðri fjárhagsáætlun. Við þökkum sveitarstjórn allri fyrir gott samstarf.
 
f.h. meirihluta Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks í sveitarstjórn Borgarbyggðar
Guðveig Eyglóardóttir, formaður byggðarráðs
Björn Bjarki Þorsteinsson, forseti sveitarstjórnar
 
 

Share: