Fínn fundur um silungsveiði

maí 9, 2007
Silungsveiði í Borgarbyggð var umræðuefni á opnum fundi atvinnu- og markaðsnefndar sem haldinn var í gær á Hótel Hamri. Tilgangurinn var að kanna vilja og áhuga heimamanna á að auka möguleika á silungsveiði í sveitarfélaginu og um leið nýta betur þau hlunnindi sem eru í þeim fólgin. Atvinnu- og markaðsnefnd hefur um skeið verið að skoða þessa möguleika en segja má að hugmyndin sé komin frá Sigurði Má Einarssyni hjá Veiðimálastofnun og einnig úr skýrslu Landsambands veiðifélaga um vannýtt tækifæri í silungsveiði.
 
Fundurinn, sem var vel sóttur, hófst á því að Þór Þorsteinsson, formaður atvinnu- og markaðsnefndar gerði grein fyrir vinnu og hugmyndum nefndarinnar. Því næst komu tvö góð erindi. Fyrst frá Sigurði Má Einarssyni (hér er að finna erindi Sigurðar), síðan frá Magnúsi Ólafssyni, formanni silungsveiðinefndar Landssambands veiðifélaga (hér er að finna erindi Magnúsar). Að erindunum loknum voru umræður.
Niðurstaða fundarins var sú að skipaður verður vinnuhópur til að kanna möguleika á að auka silungsveiði í Borgarbyggð. Í þeim hópi verða fulltrúar landeigenda, Landssambands veiðifélaga, Veiðimálastofnunar, atvinnu- og markaðsnefndar og hugsanlega frá Stangveiðifélagi Borgarness. Langflestir þeirra sem tóku til máls voru bjartsýnir á að hægt væri að auka verðmæti þeirrar auðlindar sem í silungnum felst. Í Mýra- og Borgarfjarðasýslu einni eru alls 260 stöðuvötn sem eru stærri en 10 ha, þar af eru 22 stærri en 100 ha. Um 55 þúsund Íslendinga stunda stangaveiði að einhverju marki og um 5.000 útlendingar koma til landsins árlega, gagngert í silungsveiði.
 

Share: