
Við fylgjumst með ferð þriggja ferðalanga á heimsenda með gripinn Geislaglóð til að bjarga framtíð álfanna í Ljósalandi. Galdramaðurinn Hrappur og hjálparhella hans sækjast eftir Geislaglóð og ferðalangarnir þrír verða að hafa sig alla við að koma í veg fyrir það, en þremenningarnir rekast einnig á ýmsar kynjaverur, s.s. tröll, vetrarálfa, köngulær og fleira á ferð sinni.
Æfingar hófust af fullum krafti í janúar. Með helstu hlutverk í Ferðinni á heimsenda fara: Eiríkur Jónsson, Rebekka Atladóttir, Margrét Hildur Pétursdóttir, Lára Margrét Karlsdóttir og Rúnar Gíslason. Á meðfylgjandi mynd sem Olgeir Helgi Ragnarsson tók má sjá leikarana Margréti Hildi Pétursdóttur, Láru Margréti Karlsdóttur og Rúnar Gíslason.