Félagsleg heima­þjónusta fyrir eldri borgara

október 4, 2019
Featured image for “Félagsleg heima­þjónusta fyrir eldri borgara”

Markmið með félagslegri heimaþjónustu er að efla íbúa til sjálfsbjargar og gera þeim kleift að búa sem lengst í heimahúsum. Í Borgarbyggð sinna á annan tug starfsmanna Borgarbyggðar félagslegri heimaþjónustu. Hittist hópurinn nú í september og hlýddi meðal annars á fyrirlestur Laufeyjar Jónsdóttir verkefnastjóri heimaþjónustu á Akranesi um þjónustu inni á heimilum fólks. Í erindi sínu lagði Laufey áherslu á friðhelgi einkalífsins, sjálfræði þjónustuþega og velferð og mikilvægi persónuverndar og friðhelgi.

Hún ræddi einnig um mikilvægi þess að skapa umræðugrundvöll til að fá vitneskju um lífssögu viðkomandi, sem er mjög góð leið til að skapa nánd og traust. Einnig að starfsmenn byggi starf sitt á hugmyndafræði þjónandi leiðsagnar sem byggir á grunnhugmyndum um gagnkvæm tengsl og að öll séum við háð hvert öðru á einn eða annan hátt. Þjónandi leiðsögn gerir kröfur til þess að umönnunaraðili horfi inn á við og nýti það góða sem býr innra með hverjum manni. Að hann finni leiðir til að gefa af sér hlýju og skilyrðislausa umhyggju í garð annarra.

Þess má geta að á síðasta ári samþykkti sveitarstjórn Borgarbyggðar stefnu í málefnum aldraðra sem verið er að innleiða. Allar nánari upplýsingar um þjónustu fyrir eldri borgara er að finna á heimasíðu Borgarbyggðar


Share: