Eyrarrósin til Landnámsseturs – Til hamingju!

febrúar 11, 2009
Eyrarrósin, viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á Landsbyggðinni féll að þessu sinni í skaut Landnámsseturs í Borgarnesi. Verndari Eyrarrósarinnar, Dorrit Moussaieff forsetafrú afhenti þeim Landnámsseturshjónum, Sigríði Margréti Guðmundsdóttur og Kjartani Ragnarssyni verðlaunin við athöfn á Bessastöðum. Landnámssetrið hlaut fjárstyrk að upphæð 1,5 milljón króna og verðlaunagrip eftir Steinunni Þórarinsdóttur.
 
Í umsögn dómnefndar segir: “Þrátt fyrir ungan aldur hefur Landnámssetur Íslands skipað sér traustan sess í menningarflóru landsins með áherslu á að kynna landnám Íslands og Íslendingasögurnar með nýstárlegum hætti. Hinu metnaðarfulla hlutverki þess að fræða, miðla og skemmta hefur verið afar vel tekið af innlendum sem og erlendum gestum. Það má ekki síst merkja af stöðugum straumi fólks af höfuðborgarsvæðinu og öllu landinu sem flykkist til að sjá rómaðar leik- og sögusýningar. Landnámssetur Íslands er mikil lyftistöng fyrir Borgarnes og nágrenni, iðandi af lífi og krafti og óhætt að fullyrða að það hafi auðgað menningarlífið á svæðinu.”
 
 

Share: