Erlend börn í Borgarbyggð – Foreign children in Borgarbyggð

febrúar 25, 2008
Sunnudaginn 17. febrúar var haldinn samstarfsfundur Borgarfjarðardeildar Rauða krossins og Grunnskólans í Borgarnesi með foreldrum erlendra nemenda sem stunda nám í Grunnskólanum í Borgarnesi. Var fundurinn haldinn í Félagsbæ og var hann vel sóttur af foreldrum frá hinum ýmsum löndum.
-Paola Cardenas, verkefnisstjóri í málefnum útlendinga á Íslandi á landsskrifstofu Rauða Krossins hélt erindið ,,Að aðlagast í nýju samfélagi/þjóðfélagi“. Paola kemur frá Kolumbíu og hefur búið á Íslandi í átta ár. Talaði hún m.a. um hvernig væntingar og draumar sem eiga að rætast í nýju landi standast oft ekki þegar nýr hversdagsleiki gerir vart við sig og hlutirnir eru ekki eins einfaldir og maður hélt.
-Kristján Gíslason skólastjóri Grunnskólans í Borgarnesi kynnti sig og ræddi starf skólans fyrir erlend börn. Sagði hann m.a. frá því hvernig reynt er að hafa erlend börn sem mest með öðrum börnum sama árgangs inni í kennslustundum.
-Ingibjörg Grétarsdóttir kennari, sem hefur haft mikið um íslenskukennslu fyrir erlend börn grunnskólans að segja, talaði um mikilvægi erlendra íbúa að læra íslensku. Hún ræddi einnig um þá tvo mikilvægu punkta að útlendingum sé gert kleyft að viðhalda eigin móðurmáli til að viðhalda tilfinningum róta sinna, sem og nauðsyn þess að foreldrarnir sjálfir læri íslensku. Það er ekki síst mikilvægt fyrir sjálfstraust fjölskyldunnar í heild.
Eitt mikilvægasta verkefni Borgarfjarðardeildar Rauða krossins eru málefni erlendra íbúa í Borgarbyggð og ætlar deildin að gefa hverri fjölskyldu kennsluefni í íslensku svo fjölskyldan geti lært íslensku saman heima.
Skemmtilegar umræður sköpuðust í lok fundarins, þar sem ýmsum skoðunum foreldra var velt upp. Næsti sameiginlegi fundur Borgarfjarðardeildar Rauða krossins og Grunnskólans í Borgarnesi um málefni erlendu barna skólans verður haldinn í mars eða apríl. Yfirskrift hans verður ,,Fordómar og okkar eigin ábyrgð“.
 

Share: