Erasmus+ heimsókn í Grunnskóla Borgarfjarðar vikuna 13.-19.mars 2022

mars 28, 2022
Featured image for “Erasmus+ heimsókn í Grunnskóla Borgarfjarðar vikuna 13.-19.mars 2022”

Í síðustu viku tók Grunnskóli Borgarfjarðar á móti þátttakendum frá fimm skólum í Evrópu, en um er að ræða Erasmus+ verkefni sem styrkt er af Evrópusambandinu. Um er að ræða skólar staðsettir í Lettlandi, Rúmeníu, Spáni, Tékklandi og Portúgal. Grunnskóli Borgarfjarðar er síðan sjötti skólinn í samstarfinu. Verkefninu er stjórnað frá Lettlandi.

Verkefnið hófst núna í ársbyrjun 2022 og stendur til á vordögum 2023 og samanstendur af samvinnu og heimsóknum á milli skólastofnanna í löndunum sex. Meginmarkmið verkefnisins er að dýpka skilning nemenda og kennara á því verkefni sem er fyrir höndum er og mikilvægi samvinnu þegar kemur að því að hjálpast að við að hugsa um okkar einu jörð til framtíðar. 

Í hverri heimsókn koma eða fara fimm nemendur frá hverju landi ásamt kennurum og vinna að þeim verkefnum sem lögð eru fyrir á hverjum stað. Áherslur eru mismunandi á milli landanna, allt frá því að fjalla um hvernig nýta má efni og verðmæti betur, læra að gera lífrænan áburð í að skilja hvernig hægt er að læra af mistökum fyrri kynslóða í náttúruvernd.

Þessi heimsókn í GBF var sú fyrsta í verkefninu og var lögð áhersla á að kynna fyrir nemendum hvernig við nýtum jarðvarma ásamt því að læra um og skilja jarðfræði landsins og hvernig við getum lært með því að þekkja það sem náttúran hefur uppá að bjóða.  Þátttakendum var skipt upp í námshópa þar sem þeir fengu kynningu á jarðfræði, náttúrufari og lífríki Íslands, fóru í leikjatengt nám þar sem tekist var á við verkefni sem byggja á samskiptum og samvinnu ásamt því að kynnast því hvernig Íslendingar hafa nýtt hveri til að baka brauð, fengu meðal annars að baka alíslenskt rúgbrauð að ógleymdri reynslunni að fara í heita sundlaug í vetrarhríðinni. Að sjálfsögðu var áhersla á þátttöku, leikjatengt útinám, tæknilausnir og reynslu nemenda í verkefninu ásamt sköpun.

Svona verkefni vinnst ekki nema með góðri teymisvinnu og er starfólki og stjórnendum þakkað fyrir sín störf. Unglingadeildarteymi grunnskólans fær einnig hrós fyrir að lyfa grettistaki í þessu verkefni í miðri Covid-bylgju.

 


Share: