Eins og kunnugt er var sorphirða í Borgarbyggð nýlega boðin út og í kjölfar þess var ákveðið að semja við Íslenska gámafélagið ehf. um sorphirðu í sveitarfélaginu. Í nýjum samningi er það almenn regla að tvær tunnur verði við hvert heimili í þéttbýli. Annars vegar tunna fyrir óflokkað sorp og hins vegar tunna fyrir sorp sem má endurvinna.
Óflokkað sorp verður í framtíðinni losað á hálfsmánaðar fresti og flokkað sorp á mánaðar fresti. Áður voru sorptunnur losaðar á 10 daga fresti. Með þessum samningi er Borgarbyggð að taka upp mun umhverfisvænni tilhögun á sorphirðu og mikilvægt er að allir taki höndum saman um að vel takist til.
Í byrjun október verður grænum tunnum fyrir endurvinnanlegt hráefni dreift á öll heimili í þéttbýli Borgarbyggðar; Borgarnes, Bifröst, Hvanneyri, Kleppjárnsreyki, Bæjarsveit, Reykholt og Varmaland. Þessi aukna þjónusta er innifalin í sorpgjöldum sveitarfélagsins og mun auka til muna nýtingu á því endurvinnanlega hráefni sem fellur til á heimilum. Handbók með leiðbeiningum um flokkun sorps og kynningu á breytingunum verður dreift í hús á næstunni. Handbókina má einnig lesa hér.