Samkvæmt reglum Borgarbyggðar eiga tekjulágir elli- og örorkulífeyrisþegar sem eiga lögheimili í Borgarbyggð rétt á afslætti af fasteignaskatti. Afslátturinn nær til íbúðarhúsnæðis sem viðkomandi býr sjálfur í.
Afslátturinn ræðst af tekjum undanfarins árs. Hann er reiknaður til bráðabirgða við álagningu fasteignagjaldanna, út frá öllum skattskyldum tekjum einstaklings eða hjóna/sambúðarfólks, þ.m.t. eigna- og fjármagnstekjum samkvæmt síðasta skattframtali. Þegar afslátturinn var reiknaður í upphafi árs 2012 lá fyrir skattframtal með tekjum ársins 2010 og var afslátturinn reiknaður út frá þeim.
Nú liggur fyrir staðfest skattframtal sem sýnir tekjur ársins 2011 og hefur afslátturinn verið endurreiknaður og leiðréttur miðað við þær. Í ljós kemur að í sumum tilfellum hefur afslátturinn verið ofreiknaður og þurfa gjaldendur þá að greiða til baka en í öðrum tilfellum hefur afslátturinn verið vanreiknaður og verður þá gjaldendum endurgreiddur mismunurinn. Í flestum tilfellum er afslátturinn óbreyttur frá því sem var við bráðabirgðaútreikning í upphafi árs.
Þeim elli- og örorkulífeyrisþegum sem fá breytingu á afslættinum verður sent bréf varðandi niðurstöðu endurreikningsins ásamt greiðsluseðli þar sem það á við.
Tekjumörk vegna afsláttarins eru þessi:
Fyrir einstaklinga (tekjur á árinu 2011):
með tekjur allt að kr. 2.517.000 er veittur 100% afsláttur
með tekjur á bilinu kr. 2.517.001 – 2.913.000 er veittur 75% afsláttur
með tekjur á bilinu kr. 2.913.001 – 3.307.000 er veittur 50% afsláttur
enginn afsláttur veittur til þeirra einstaklinga sem eru með tekjur yfir kr. 3.307.000 á árinu.
Fyrir hjón (tekjur á árinu 2011):
með tekjur allt að kr. 4.161.000 er veittur 100% afsláttur
með tekjur á bilinu kr. 4.161.001 – 4.654.000 er veittur 75% afsláttur
með tekjur á bilinu kr. 4.654.001 – 5.147.000 er veittur 50% afsláttur
enginn afsláttur er veittur til þeirra hjóna sem eru með tekjur yfir kr. 5.147.000 á árinu.
This site is registered on wpml.org as a development site. Switch to a production site key to remove this banner.