Hið merka skip Eldborgin var gerð út frá Borgarnesi í meira en tvo áratugi um miðbik síðustu aldar og á sér því sérstakan sess í atvinnusögu héraðsins. Á morgun, föstudag kl.18.00 er gestum boðið í Safnahús Borgarfjarðar í tilefni þess að Byggðasafni Borgarfjarðar verður afhent líkan af skipinu til varðveislu. Athöfnin, sem er á vegum Borgarbyggðar og Safnahúss, verður á neðri hæð hússins, í salnum þar sem sýningin Börn í 100 ár hefur verið sett upp.
Það er Sigvaldi Arason í Borgarnesi sem hefur haft frumkvæði að kaupa líkanið, með stuðningi ýmissa aðila í héraði og í samvinnu við Gunnar Ólafsson fyrrv. skipstjóra á Eldborginni.
Við sama tækifæri verður opnuð á efri hæð Safnahúss sýning á myndskreytingum í íslenskum barnabókum.
Sýningin nefnist „Þetta vilja börnin sjá!” og er farandsýning sem er nýkomin frá Akureyri. Þar er hægt að sjá myndskreytingar hátt í 20 listamanna á barnabókum sem komu út árið 2007 og voru tilnefndar til Dimmalimm verðlaunanna sem veitt eru á hverju ári.
Léttar veitingar verða á staðnum og Steinunn Pálsdóttir leikur sjómannalög af þessu góða tilefni. Allir velkomnir.
Ljósmynd með frétt: úr Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar – Safnahús