Frá slökkviðsstjóra:
Þann 4. febrúar s.l. undirrituðu þeir Bjarni K. Þorsteinsson slökkviliðsstjóri fyrir hönd slökkviliðs Borgarbyggðar og Aðalsteinn Símonarson fyrir hönd Límtré-Vírnets ehf. í Borgarnesi yfirlýsingu um samstarf slökkviliðsins og Límtré-Vírnets ehf. um eigið eldvarnaeftirlit fyrirtækisins.
Eftirlitið er þannig uppbyggt að skipaður er eldvarna- og öryggisfulltrúi innan fyrirtækisins sem hefur mánaðarlegt eftirlit með fyrirfram ákveðnum atriðum sem þurfa eftirlits með. Hann færir inn á skoðunarskýrslu hvort atriðin séu í lagi eða ekki og er þá gerð tímasett áætlun um lagfæringar og úrbætur gerist þess þörf. Í árslok fer fram ítarlegri skoðun á húsnæði og búnaði og þeim atriðum sem fylgst er með mánaðarlega.
Slökkviliðið fylgist með framgangi eftirlitsins og er öllum gögnum haldið til haga. Slökkviliðið heldur endurgjaldslausa fræðslufundi fyrir starfsólk fyrirtækisins sé þess óskað um eldvarnir í fyrirtækjum og viðbrögð við eldi. Slökkviliðið hefur einnig milligöngu um að útvega fræðsluefni og kennara frá Landssambandi Slökkviliðs-og sjúkraflutningamanna til að kenna og æfa viðbrögð starfsfólks við eldi og notkunn á slökkvibúnaði sé þess óskað og ber þá fyrirtækið þann kostnað. Eigin eldvarnaeftirliti er ekki ætlað að koma í stað lögbundins eldvarnaeftirlits heldur sem þörf viðbót í þessum málaflokki en þar sem þessu hefur verið komið á hefur það leitt til vitundarvakningar starfsfólks um afkomu- og starfsöryggi þess.
Eigið eldvarnaeftirlit hefur verið kynnt fyrir fleiri fjölmennum fyrirtækjum í Borgarbyggð og er þar til skoðunar og væntir slökkviliðið góðra og jákvæðra viðbragða af hálfu stjórnenda viðkomandi fyritækja. Þess er einnig að vænta að farið verði í fámennari fyrirtæki og vinnustaði hér í héraðinu með vorinu og málefnið kynnt fyrir eigendum og stjórnendum þeirra.
Með kveðju,
Bjarni Kristinn Þorsteinsson
Slökkviliðsstjóri.