Desember í Tónlistarskólanum

desember 27, 2019
Featured image for “Desember í Tónlistarskólanum”

Desember heilsar okkur að jafnaði með jólalögum og huggulegheitum.  Það var mikið um að vera hjá Tónlistarskóla Borgarfjarðar í mánuðinum, meðal annars mætti Söngleikjadeildin í Skallagrímsgarðinn fyrsta sunnudag í aðventu, á Aðventuhátíðinni þegar kveikt var á jólatré Borgarbyggðar. Þar sungu börnin lög úr söngleikjum og jólalög.

Auk þess fóru kennarar og nemendur skólans í félagsstarf eldri borgara í Borgarnesi í mánuðinum, þau sungu og spiluðu jólalög fyrir heimilisfólkið. Það hefur verið hefð í mörg ár að skólinn heimsæki eldriborgarastarfið og haldi tónleika nokkrum sinnum yfir veturinn.

Jólatónleikar skólans voru með hefðbundnum hætti, það er að segja tónleikadagarnir voru nokkrir og þeir voru haldnir víðsvegar um sveitarfélagið. Forskólinn reið á vaðið með sérlega skemmtilega tónleika. Síðan voru söngnemendur og hljóðfæranemendur með tónleika í skólanum í Borgarnesi, á Bifröst og í Logalandi. Tónleikarnir voru vel heppnaðir og vel sóttir.

Eftir tónleikahald voru nemendur komnir í jólafrí, þó fékk skólinn góða gesti áður en jólin gengu í garð en leikhópurinn Flækja kom með hátíðarsýninguna Það og Hvað.  Sýningin var skemmtileg upplyfting fyrir jólin.

Að lokum héldu kennarar sína jólasamveru í desember. Að þessu sinni var jólasamveran haldin í skólanum, allir komu með veitingar og kennarar skiptust á jólapökkum.

Tónlistarskóli Borgarfjarðar sendir öllum nær og fjær bestu jóla- og nýársóskir. Kennarar hlakka til að hitta nemendurna á nýja árinu.


Share: