Dagur leikskólans

febrúar 8, 2019
Featured image for “Dagur leikskólans”

Dagur leikskólans var haldinn hátíðlegur í leikskólum landsins 6. Febrúar sl. Þetta er í tólfta skipti sem haldið er upp á daginn en 6. febrúar er merkilegur dagur í leikskólasögu þjóðarinnar því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.

Tilgangur Dags leikskólans er að vekja athygli á hlutverki leikskóla og starfi leikskólakennara. 

Samstarfsaðilar um Dag leikskólans eru Félag leikskólakennara, Félag stjórnenda leikskóla, Samband íslenskra sveitarfélaga, mennta- og menningarmálaráðuneytið og Heimili og skóli – landssamtök foreldra. Allir sem koma að málefnum leikskólans á einn eða annan hátt, eru hvattir til að halda Degi leikskólans á lofti og fylgjast vel með starfsemi leikskólanna þennan dag. Leikskólakennarar eru sérstaklega hvattir til að vekja athygli á störfum sínum.

Í Borgarbyggð eru fimm leikskólar starfandi, Andabær á Hvanneyri, Hnoðraból á Grímsstöðum, Hraunborg á Bifröst og Klettaborg og Ugluklettur í Borgarnesi. Þar er unnið fjölbreytt starf undir stjórn áhugasamra leikskólakennara og annars starfsfólks í samstarfi við börnin sem þar dvelja.

Leikskólarnir opnuðu dyrnar hjá sér fyrir gestum og buðu uppá fjölbreytta dagskrá á degi leikskólans. Meðal annars var vígður klifurveggur á Uglukletti sem sjá má á meðfylgjandi mynd.

Við óskum leikskólum til hamingju með daginn!


Share: