Dagur tónlistarskólanna 7. febrúar

febrúar 7, 2022
Featured image for “Dagur tónlistarskólanna 7. febrúar”

Dagur tónlistarskólanna er haldinn árlega og er honum ætlað að vekja athygli á því mikla og merka starfi sem unnið er í tónlistarskólum landsins. Oft er á þessum degi haft opið hús í tónlistarskólum, haldnir tónleikar og jafnvel boðið í kaffi. Það verður eðlilega ekki að þessu sinni. Þó undanfarin misseri hafi verið sérstök í framkvæmd þá heldur tónlistarskólastarfið áfram af miklum krafti og nemendum í Tónlistarskóla Borgarfjarðar hefur fjölgað. Söknuður er á meiri aðkomu foreldra, fleiri tónfunda og almennt frjálslegra samneytis en þetta gengur yfir.

Af 240 nemendum í skólanum í dag eru um 40 nemendur í forskólanum. Forskólinn, sem ætlaður er leikskólabörnum, hefur vaxið og dafnað og fyrir nokkrum vikum urðum við að bæta við fimmta hópnum. Vinsælustu hljóðfærin eru enn sem áður píanó og gítar, en í skólanum eru nemendur líka að læra á bassa, blokkflautu, þverflautu, trompet, klarinet og svo auðvitað trommur. Söngnámið er öflugt og söngleikjadeildin vinsæl.

Framundan er þátttaka í Nótunni, vonandi senda einhverjir nemendur okkar efni í Upptaktinn og svo er nokkrir byrjaðir að semja tónverk fyrir tónleika í byrjun apríl sem eru helgaðir frumsömdum verkum. Þeir tónleikar eru samstarfsverkefni tónlistarskólans, Safnahúss Borgarfjarðar og Landnámssetursins. Svo kemur vorið með sínum prófum, sýningum og tónleikum sem alltaf er spennandi tími, sem sagt líf og fjör í tónlistinni!

Með þessari kveðju á Degi tónlistarskólanna frá öllum í Tónlistarskóla Borgarfjarðar fylgir myndbandsbrot úr bráðskemmtilegri sýningu á Ronju ræningjadóttur, en verkið var flutt á vegum Söngleikjadeildar skólans fyrir jól.


Share: