Dagur leikskólans verður haldinn hátíðlegur í leikskólum Borgarbyggðar fimmtudaginn 6. febrúar næstkomandi. Dagurinn er merkilegur dagur í leikskólasögu þjóðarinnar því á þessum degi árið 1950 stofnuðu frumkvöðlar leikskólakennara fyrstu samtök sín.
Munu leikskólakennarar, stjórnendur leikskólanna og starfsfólk halda upp á daginn með margvíslegum hætti.
Í Andabæ verður foreldrum og vinum boðið í kaffihús milli 08:00 og 10:00 í sal leikskólans þar sem börnin ætla að undirbúa veitingar og skreyta salinn. Þá verður einnig opið inn á deildir og gestum boðið að taka þátt í skólastarfinu.
Á Hnoðrabóli verður opið hús frá kl. 15:00-16:00. Börnin og starfsfólk leikskólans ætla að bjóða gestum á myndlistasýningu sem og að taka þátt í myndlistaverkefni þar sem allskonar efniviður verður í boði til að búa til listaverk þar sem hugmyndaflugið fær að ráða för. Gestum er einnig boðið upp á kaffi og kleinur.
Í Hraunborg hafa börnin teiknað fjölskyldu-, sjálfs- og vináttumyndir sem verða til sýnis fyrir foreldra á morgun.
Í Klettaborg verður foreldrum boðið í morgunkaffi kl. 08:00 – 09:00. Í Hyrnutorgi verður leiðtogasýning þar sem myndir og fleiri verk eftir börnin verða til sýnis næstu tvær vikurnar. Skólinn hvetur alla til að fara og sjá þessi flott verk leiðtoga framtíðarinnar.
Í Uglukletti var haldinn barnafundur fyrir ekki svo löngu þar sem dagur leikskólans var á dagskrá. Á fundinum var börnunum sagt frá deginum og útskýrt hvers vegna hann væri haldinn hátíðlegur. Börnin voru spurð hvað þeim mundi finnast gaman að gera í tilefni dagsins og hvernig hægt væri að kynna fyrir öðrum hvað fer fram innan leikskólans. Alls kyns hugmyndir spruttu fram, meðal annars kom sú hugmynd að senda myndir af leikskólanum svo allir sjái og búa til bók um leikskólann. Ákveðið var að framkvæma þessa hugmynd og byrja þá vinnu á degi leikskólans og sjá hvert hún leiðir. Það verður svo opið hús yfir daginn í tilefni dagsins og gestum boðið að kynna sér starfið í leikskólanum og eiga glaðar stundir með starfsmönnum skólans og börnum.