Febrúarmánuðurinn ætlar svo sannarlega að byrja með látum. Óveðrið í gær hafði í för með sér nokkra röskun á starfsemi sveitarfélagsins í gærmorgun, sem við reyndum þó að halda í lágmarki. Gætum vel að veðurspánni næstu daga, m.t.t. ferða okkar og aðgæslu lausamuna, en því er spáð að óveðrið gangi niður á dögunum.
Úttekt KMPG og verkferil fyrir framkvæmdir
Í síðustu viku fengum við í hendurnar niðurstöður úttektar KPMG á framkvæmdum við húsnæði Grunnskólans í Borgarnesi. Á síðasta ári lagði byggðarráð til að farið yrði í hlutlausa úttekt á umræddum framkvæmdum svo hægt yrði að draga lærdóm af því verklagi sem þar var viðhaft. Í skýrslunni koma fram annmarkar á vinnulagi og eftirliti stjórnsýslunnar frá upphafi framkvæmdar árið 2014. Sveitarfélagið hefur skoðað vel og ítarlega þau atriði sem fóru úrskeiðis og harmar þau mistök sem voru gerð í þessu framkvæmdarferli.
Nú þegar er búið að gera úrbætur á vinnulagi og voru drög að nýjum verkferli lögð fram til kynningar á síðasta byggðarráðsfundi. Með verkferlinum er settur skýr rammi utan um framkvæmdir frá upphafi til enda og hlutverk, ábyrgð og eftirlit allra aðila vel skilgreind. Samþykkti byggðarráð að farið yrði eftir verkferlinum í framkvæmdum sveitarfélagsins hér eftir.
Framkvæmdir á skólahúsnæði á Grunnskóla Borgarfjarðar – Kleppjárnsreykjadeild
Framkvæmdir við Grunnskóla Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum eru á fjárhagsáætlun næstu árin. Á síðasta byggðarráðsfundi var mér falið að gera erindisbréf fyrir byggingarnefnd og leggja til hvernig skipað skyldi í nefndina í samræmi við verkferil um framkvæmdir sveitarfélagsins. Til stendur að ráða verkefnastjóra fyrir þetta tiltekna verkefni sem mun bera ábyrgð á eftirfylgni og eftirliti fyrir hönd sveitarfélagsins.
Stofnfundur húsnæðissjálfseignarstofnunar fyrir landsbyggðina
Í janúar sat ég umræðufund á vegum Samband íslenskra sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun þar sem farið var yfir forsendur samstarfs sveitarfélaga um stofnun húsnæðissjálfseignarstofnunar. Markmiðið með verkefninu er að ná aukinni hagkvæmni í uppbyggingu og rekstri almennra íbúða utan höfuðborgasvæðisins.
Á síðasta fundi byggðarráðs var mér falið að mæta til stofnfundar húsnæðissjálfseignarstofnunar fyrir landsbyggðina og verður tekin ákvörðun á sveitarstjórnarfundi á fimmtudaginn nk. hvort Borgarbyggð verði stofnaðili að stofnuninni. Stofnfundur verður haldinn 15. febrúar n.k.
Ferðamálaráð Vesturlands
Í lok janúar fékk sveitarfélagið boð um að tilnefna fulltrúa Borgarfjarðarsvæðisins í nýstofnað Ferðamálaráð Vesturlands. Markmið og hlutverk Ferðamálaráðs Vesturlands er að vinna að stefnumótun fyrir uppbyggingu ferðamála, kynningar- og markaðsstarf á Vesturlandi. Ferðamálaráðið skal hafa yfirsýn yfir fjölþætt eðli ferðaþjónustunnar og hvaða áherslur eru efst á baugi varðandi uppbyggingu innviða, gestamóttöku og markhópa, bæði innlenda og erlenda.
Það er okkur heiður að fá að sitja í þessu mikilvæga ráði, sérstaklega þegar það horfir til betri tíma í ferðaþjónustunni.
Vinnufundur um skipulagsmál í Borgarbyggð
Í síðustu viku fór fram vinnufundur sveitarstjórnarfulltrúa og fulltrúa skipulags- og byggingarnefndar með starfsfólki Borgarbyggðar sem kemur að skipulags- og byggingarmálum. Dagskrá fundarins var skipt í þrjá liði. Fyrst á dagskrá var kynning á niðurstöðum rannsóknar á elsta hluta Borgarness sem gengur undir heitinu Smoties. Smoties er þverfaglegt verkefni sem skoðar skipulagsmál bæja út frá sagfræðilegum, sálfræðilegum, skipulagslegum og arkitektalegum forsendum. Verkefnið er m.a. styrkt af Evrópusambandinu og samþykkti Borgarbyggð á síðasta ári þátttöku í því. Niðurstöður rannsóknarinnar og hugmyndir voru rædd og þótti fundarmönnum sérstaklega áhugavert að fá rýni þróunar byggðar í Borgarnesi og þær hugmyndir sem fram komu hjá rannsakendum. Niðurstöðurnar verða nýttar við endurskoðun aðalskipulags, enn fremur verður kannað möguleikana á að kynna verkefnið á almennum fundi. Næst á dagskrá voru umræður um framtíðarskipulag í Brákarey og þeim möguleikum sem er fyrir hendi við skipulagsvinnu Brákareyjar. Þriðja mál á dagskrá var umræða um fjölgun íbúðarhúsnæðis í Borgarnesi, þar var greining starfsmanna sveitarfélagsins á því hvar væri pláss fyrir nýja íbúabyggð og þéttingu byggðar. Fundarmenn voru sammála um að skoða bæri nýja íbúabyggð þar sem gert væri ráð fyrir mikilli fjölgun fasteigna. Síðast málið á dagskrá var upplýsingagjöf til fundarmanna um stöðu skipulagsmála sem eru í vinnslu á vegum sveitarfélagsins. Niðurstaða fundarins var að á næsta byggðarráðsfundi skyldu tekin á dagskrá málefni er varðar skipulag Brákareyjar og nýja íbúabyggð í Borgarnesi.
Borgar þegar hent er
Umhverfis- og framkvæmdadeild er að skoða hvernig sveitarfélagið geti uppfyllt breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, lögum um meðhöndlun úrgangs og lögum um úrvinnslugjald er gera ráð fyrir að íbúar greiði fyrir sorp eftir þyngd. Þessi breyting tekur gildi 1. janúar 2023 og vinna sveitarfélögin nú saman að því með hvaða hætti er hægt að innleiða þetta kerfi. Lögin báru einnig með sér ítarlegri sorpflokkun á heimilum, m.a. safna lífrænum heimilisúrgangi, sem þegar hefur verið innleitt í Borgarbyggð.
Verkefni framundan
Gert er ráð fyrir að farið verði í útboð á framkvæmdum við ráðhúsið á Digranesgötu 2 á komandi vikum. Fyrirhugað er að skipta framkvæmdum niður á tvö ár líkt og fjárfestingaráætlunin gerir ráð fyrir, þar sem aðaláherslan á árinu 2022 verði 1. hæðina og síðan á árinu 2023 verði allri starfsemi ráðhússins komið fyrir undir eitt þak.
Þessa dagana eru starfsmenn nefnda að fá fræðslu um fundarritun nefnda. Þeir starfsmenn sem taka stjórnsýsluákvarðanir og tilkynna um þær fá sérstaka fræðslu í stjórnsýslurétti. Er þetta hluti af þeirri vinnu sem við hófum á síðast ári í átt að betri og skilvirkari stjórnsýslu.
Kæru íbúar, líkt og þið sjáið þá er margt um að vera og margt í bígerð. Ég vil benda ykkur á að senda okkur ábendingar um það sem má betur fara eins ef þið viljið senda okkur hrós fyrir það sem vel er gert. Ábendingarhnappinn er að finna efst og neðst á heimasíðu Borgarbyggðar. Það er nauðsynlegt fyrir okkur að fá að heyra í ykkur svo við getum bætt okkar verklag og lagað það sem betur má fara í okkar nærumhverfi. Við leitumst við að þjónusta ykkur á sem besta hátt og það gerum við í samvinnu við ykkur.
Eigið góða viku framundan og farið varlega í veðurofsanum.