Dagbók sveitarstjóra 19. vika

maí 12, 2022
Featured image for “Dagbók sveitarstjóra 19. vika”

Það er komið vor í loftið, það er ánægjulegt að sjá hvað fólk er duglegt að snyrta til í garðinum sínum og hvað íbúar eru duglegir að týna rusl í náttúrunni okkar. Það er líka skemmtilegt hvað það er mikið að gerast í sveitarfélaginu þessa dagana, en tíminn í kringum kosningar er alltaf annasamur og skemmtilegur.

Í dag ætla ég að stikla á stóru varðandi verkefni undanfarinna vikna:

Atvinnumálaþing Borgarbyggðar

Fjölmennt atvinnumálaþing fór fram 26. apríl sl. í Hjálmakletti. Þingið var ekki í beinu streymi en hægt er að nálgast upptöku af þinginu í heild sinni hér.

Markmið þingsins var að skapa vettvang fyrir aðila atvinnulífsins og áhugafólk um atvinnulíf í sveitarfélaginu þar sem einblínt var á framtíðarsýnin atvinnumála, áhrifaþætti í atvinnuþróun og tækifæri í nýsköpunar- og frumkvöðlastarfsemi.

Markmiðið er að halda áfram að vinna með atvinnulífinu og finna leiðir til að efla sterkan grunn sem fyrir er í Borgarbyggð.

Árshátíð Borgarbyggðar

Árshátíð sveitarfélagsins fór fram á föstudaginn sl. Ég er gríðarlega þakklát öllum þeim sem komu að skipulagningu árshátíðarinnar og öllum þeim sem mættu. Þetta var frábær stund og sýnir hvað við búum yfir miklum mannauði, starfsgleði og góðum vinnustöðum. Það skapaðist mikil stemning í kringum árshátíðina sem gaf aukið líf í störf okkar hjá sveitarfélaginu og jók enn meira á samheldnina og tilfinningu allra starfsmanna á að vera starfsmenn Borgarbyggðar. Á árshátíðina mættu 333 manns og er óhætt að segja að þetta sé fjölmennasta skemmtun sem Borgarbyggð hefur staðið fyrir undanfarin ár.

Sýningaropnun: Hennar voru spor

Í lok síðasta mánaðar opnaði sumarsýning Safnahúss Borgarfjarðar, hún ber heitið Hennar voru spor. Sýningarstjórinn er Katrín Jóhannesdóttir, textíl kennari við Hússtjórnarskólann í Reykjavík.

Ég hvet ykkur eindregið til þess að kíkja á handverkssýninguna, en hún er gríðarlega vel fram sett og vel þess virði að berja augum.

Barnapakki Borgarbyggðar

Á síðasta ári fengu 39 börn Barnapakka Borgarbyggðar, en samtals hafa 130 börn fengið gjöfina síðan fyrsti barnapakkinn var afhentur árið 2019. Bakhjarlar verkefnisins og jafnframt þau fyrirtæki/stofnanir sem standa að barnapakkanum í samstarfi við sveitarfélagið hafa flest verið með frá upphafi. Þessir aðilar fá miklar þakkir fyrir og hafa fyrirtæki nú þegar sett saman 15 poka á árinu en við gerum ráð fyrir að afhenda 40 pakka á árinu.

Gæðahandbók

Fyrsta útgáfa gæðahandbókarinnar hefur litið dagsins ljós. Um er að ræða 47 samþykkta verkferlar og áætlað er að fleiri verði samþykktir í 2. útgáfu gæðahandbókarinnar. Verkferlar eru samþykktir af framkvæmdaráði sveitarfélagsins sem skipa sveitarstjóri og sviðsstjóra. Einstakir verkferlar eru lagðir fyrir byggðarráð til samþykktar, þar sem um stærri málefni er að ræða og verkferlar sem tengjast ákvörðunartökum þeirra. Stórir og mikilvægir verkferlar eins og verkferil um framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins og verkferil um viðauka við fjárhagsáætlun eru í fyrstu útgáfu gæðahandbókar.

Um er að ræða mikið framfaraskref í stjórnsýslunni en eins og margir vita þá er þetta þáttur í því að gera stjórnsýsluna skilvirkari og straumlínulagaðri og er þetta hluti af stærsta markmið sveitarfélagsins síðan stjórnsýsluúttekt fór fram árin 2019-2020.

Stofnun Gleipnis

Á miðvikudaginn var haldinn stofnfundur Gleipnis – Nýsköpunar- og þróunarsseturs á Vesturlandi ses. sem ég tók þátt í fyrir hönd Borgarbyggðar sem eins stofnanda. Stærstu stofnendur eru Landbúnaðarháskóli Íslands, Háskólinn á Bifröst, Landsvirkjun og Borgarbyggð. Gleipnir hefur m.a. að leiðarljósi að stuðla að nýsköpun, rannsóknum, fræðslu og frumkvöðlastarfi á sviði landbúnaðar, matvælaframleiðslu, sjálfbærni og loftlagsmála. Fyrsta verkefni Gleipnis er Matvælalandið Ísland.

Viljayfirlýsing um stofnun grænna iðngarða á Grundartanga

Á fimmtudaginn undirrituðu eigendur Þróunarfélags Grundartanga ásamt fyrirtækjunum sem starfa á Grundartangasvæðinu viljayfirlýsing um uppbyggingu grænna iðngarða með hringrásarhugsun. Um metnaðarfullt verkefni er að ræða og mikla hagsmuni fyrir aðstandendur verkefnisins. Á Grundartanga starfa mörk fyrirtæki en Grundartangi er hluti af atvinnusvæði íbúa Borgarbyggðar.

Kosningar

Þá eru kosningarnar eftir aðeins 2 daga. Framboðsfundir hafa verið í gangi í vikunni og er síðasti fundurinn í kvöld í Hjálmakletti kl. 20:00 í Borgarnesi.

Upplýsingar um skipan í kjördeildir og upplýsingar um kjörskrá er að finna á heimasíðu Borgarbyggðar.

Ég hvet ykkur eindregið til að nýta kosningarétt ykkar í lýðræðislandinu okkar Íslandi.


Við höldum ótrauð áfram og getum horft björtum augum á framtíðina en næsta mál á dagskrá er að fjölga íbúum, skapa fleiri atvinnutækifæri og halda áfram endurbótum á stjórnsýslunni.

 

 

 


Share: