Dagbók sveitarstjóra vika 11 & 12

mars 31, 2022
Featured image for “Dagbók sveitarstjóra vika 11 & 12”

Kæru íbúa og aðrir

Eins og alltaf er nóg að brasa hjá starfsfólki Borgarbyggðar sem og öðrum íbúum. Hér stikla ég á stóru yfir það helsta sem hefur drifið á daga mína.

Móttaka flóttafólks frá Úkraínu

Sveitarfélagið er í óða önn að undirbúa komu flóttafólks frá Úkraínu í skammtímaúrræði. Við fáum gesti frá Úkraínu sem munu dvelja á Bifröst í allt að 12 vikur á meðan unnið verður að því að finna varanlegt búsetuúrræð. Gert er ráð fyrir því að fyrstu gestirnir komi núna í byrjun apríl. Móttakan er samstarfsverkefni Borgarbyggðar, Rauða Kross Íslands, Háskólans á Bifröst og fleiri aðila sem gert er samkvæmt samkomulagi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið.

Borgarbyggð hefur gengið frá ráðningu verkefnastjóra í tímabundið starf við Heiðrúnu Helgu Bjarnadóttur, sem mun annast utanumhald verkefnisins ásamt þverfaglegu teymi. Rauði Krossinn kemur að verkefninu og mun til að mynda aðstoða við móttöku fólksins og öflun fatnaðar. Áhugasamir eru hvattir til að bjóða sig fram sem sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum þar sem hægt verður að hjálpa með mismunandi verkefni sem tengjast móttöku gestanna. Háskólinn á Bifröst mun sjá um allt sem tengist húsnæðinu og ef fólk hefur húsgögn eða annan húsbúnað til að gefa er hægt að hafa samband við þau í netfangið ukraina@bifrost.is. Þá er einnig hægt að hafa samband við verkefnastjóra á netfangið ukraina@borgarbyggd.is til að bjóða fram aðstoð.

Við skulum taka vel á móti gestum okkar með hvaða hætt sem okkur er mögulegt, veitum því stuðning og hlýju á þessum erfiðum og flóknum tímum.

Upptökur og útsendingar

Mig langar að vekja athygli á því að nú er hægt að nálgast upptökur og útsendingar sveitarfélagsins á því efni sem sveitarfélagið hefur tekið upp á heimasíðu þess, www.borgarbyggd.is.

Í upplýsinga- og lýðræðisstefnu Borgarbyggðar kemur fram að aðgengi að upplýsingum er grundvöllur að virkri og málefnalegri umræðu í samfélaginu. Sveitarfélagið skal tryggja vandaða og aðgengilega miðlun upplýsinga og hvetja til lýðræðislegar þátttöku. Tekið var stórt framfaraskref með því að hefja útsendingar af sveitarstjórnarfundum og hvet ég íbúa eindregið til þess að horfa á fundi og senda okkur ábendingar um þau mál sem fjallað er um hverju sinni. Við viljum endilega heyra frá ykkur.

Íbúafundur um skólastefnu

Þann 22. mars sl. fór fram íbúafundur um skólastefnu sveitarfélagsins. Fundurinn var vel sóttur en yfir 80 manns mættu. Á fundinum fór fram hópavinna á átta borðum en einnig var í boði að taka þátt á Teams og myndaðist einn rafrænn hópur sem er mjög ánægjulegt. Þetta var virkilega góður fundur og hvet ég áhugasama um að kynna sér vinnu hópanna sem voru settir upp í skjali sem er aðgengilegt öllum – sjá hér. 

Næsta skrefið núna að vinna úr þessum punktum sem fram komu á fundinum og skólastefnan tekin saman. Þegar drögin liggja fyrir verður stefnan birt á heimasíðu Borgarbyggðar til umsagnar.

Tækifæri og nýsköpun

Borgarbyggð hefur verið boðin þátttaka í stofnun sjálfseignarstofnunar um nýsköpunarnet Vesturlands og hef ég fyrir hönd sveitarfélagsins staðfest þátttöku. Nýsköpunarnetið er fyrir alla, fyrirtæki, stofnanir, sveitarfélög og einstaklinga og er tilgangur netsins að tengja saman hagsmunaaðila, aðstoða við styrkumsóknir, vera styrkjabrunnur (veita upplýsingar um styrki), vera tengiliður mismunandi aðila og vera faglegur stuðningur. Nýsköpunarnetið verður formlega stofnað 6. apríl nk. og hlakka ég til að taka þátt í þessari vinnu sem framundan er.

Auk þess hefur sveitarfélaginu verið boðin stofnaðild að Nýsköpunar- og þróunarsetrið á Vesturlandi. Sá stofnfundur verður haldinn í maí á þessu ári en á síðasta ári skrifaði Borgarbyggð, ásamt öðrum aðilum, undir viljayfirlýsingu um stofnun nýsköpunar- og þróunarsetursins. Um er að ræða samstarfsverkefni Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólans á Bifröst í samstarfi við aðra aðila.

Skemmtilegir viðburðir

Nú þegar Covid-takmörkum hefur verið aflétt höfum við getað leyft okkur aðeins meira ef svo má að orði komast. Grunnskóli Borgarfjarðar tók á móti þátttakendum frá fimm skólum í Evrópu í síðustu viku en um er að ræða verkefni Erasmus+ verkefni. Lesa má nánar um verkefnið hér.  Einnig var lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar haldin í síðustu viku með flottri þátttöku nemenda úr Borgarbyggð. Ég óska vinningshöfum og þátttakendum innilega til hamingju með árangurinn.

Ungmennin gátu loks haldið Ungmennaþing og sátu fulltrúar frá sex sveitarfélögum á Vesturlandi á þinginu sem haldið var á Lýsuhóli. Meðlimir Ungmennaráðs Borgarbyggðar tóku þátt af heilum hug og fengu tækifæri til að stuðla að uppbyggingu í þágu ungs fólks í landshlutanum og kynnast öðrum ungmennum á svæðinu svo fáeitt sé nefnt. Fulltrúar úr sveitarstjórn Borgarbyggðar mættu jafnframt á fundinn og sátu fyrir svörum.

Að lokum er gaman að segja frá því að Reykholtshátíð hefur hlotið tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna en um er að ræða hátíð sem haldin er á Reykholti ár hvert. Reykholtshátíðin hefur í tvígang fengið samstarfssamning við Borgarbyggð en mikilvægt er að styðja við viðburði sem hafa skapað sér sess í sveitarfélaginu og tryggja rekstur og menningararfleið hátíða sem þessa. Ég óska framkvæmdastjórum innilega til hamingju með tilnefninguna.

Vikurnar framundan

Móttaka flóttafólks er verkefni sem verður líkt og fyrr segir í brennidepli hjá okkur á komandi vikum. Við erum ótrúlega heppin að búa yfir góðum mannauð sem ætlar að aðstoða okkur í þessu mikilvæga verkefni og erum við þessa dagana að ráða inn félagsráðgjafa sem viðbót inn í þennan hóp.

Söngleikjadeld Tónlistarskóla Borgarfjarðar er að setja upp leikritið Bróðir minn Ljónshjarta eftir Astrid Lindgren. Sigríður Ásta leikstýrir söngleiknum, Theodóra Þorsteinsdóttir tónlistarstjóri og Jónína Erna Arnardóttir leikur með á píanó. Tvær sýningar verða í boði að þessu sinni, föstudaginn 1. apríl kl. 17:00 og laugardaginn 2. apríl kl. 13:00. Nánari upplýsingar um miðapantanir má finna hér.

Kosningar eru á næsta leiti og búið er að kjósa nýjan forman yfirkjörstjórnar. Framboðsfrestur vegna sveitarstjórnarkosninga rennur út kl. 12:00 föstudaginn 8. apríl og þurfa framboðslistar að hafa borist fyrir þann tíma. Yfirkjörstjórn verður í Ráðhúsi Borgarbyggðar að Digranesgötu 2, föstudaginn 8. apríl frá kl. 10:00 – 12:00 og veitir þar framboðslistum viðtöku.

Stofnanir sveitarfélagsins eru í óða önn að ljúka starfsþróunarsamtöl milli stjórnenda og starfsfólks. Slíkt samtöl eru mikilvæg og styrkja samskipti ásamt því að efla sjálfstæði og vöxt starfsfólks í starfi. Auk þess er tilgangur starfsþróunarsamtala að samræma þarfir og óskir stafsfólks og hagsmuni Borgarbyggðar.

Í lokin vil ég minna íbúa að enn er mikil útbreiðsla Covid-19 í samfélaginu sem veldur áhrif í okkar starfsemi. Mikilvægt er að við vinnum áfram saman að því að hefta útbreiðsluna eins og við getum og er öflugasta vörnin við veirunni að huga að einstaklingsbundnum sóttvörnum.

 

 


Share: