Byggðarmerki

nóvember 22, 2006
Sveitarfélaginu Borgarbyggð hefur verið valið byggðarmerki.
Höfundur merkisins er Örn Smári Gíslason.
1. sæti „Fléttan”
Að mati dómnefndar er merkið sérstaklega vel hannað. Formið er sterkt og afgerandi og nýtur sín jafnt lítið sem stórt; hvítt á lituðum grunni sem í lit á hvítum grunni; jafnt í afmörkuðum fleti sem utan hans.
Merkið er mjög sérstætt í flokki byggðamerkja. Í stað þess að kalla sjálfkrafa fram hugmynd um ákveðin einkenni t.d. í landslagi eða sögu eins og algengt er um slík merki, gefur það tilefni til fjölbreyttrar túlkunar og persónulegrar skírskotunar.
Höfundur merkisins, sem sækir formið í fornt fléttumynstur, valdi að hafa merkið þríeitt með tilvísun í menningu, menntun og sagnaarf héraðsins. Í merkinu má líka sjá keiluform Baulu, Skessuhorns og Hafnarfjalls og boga Eiríksjökuls jafnt sem gömlu Hvítárbrúarinnar. Það er tákn um samheldni og samvinnu íbúanna og um það hvernig framvinda mála veltur á þátttöku einstaklinganna. Í merkinu býr mikill kraftur og hreyfing en samt er það í fullkomnu jafnvægi. Samofnir þættir þess sýna styrk sveitarfélagsins og þá festu sem hverju samfélagi er nauðsynleg.
„Fléttan” er verðugt merki fyrir Borgarbyggð framtíðarinnar.
 

Share: