Breytingar á sorphirðu framundan

febrúar 10, 2014
Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur ákveðið að breyta skipulagi sorphirðu í sveitarfélaginu í samræmi við tillögur starfshóps frá því í mars 2013. Þá verður sorphirða í þéttbýli og dreifbýli með sambærilegum hætti.
 
Breytingarnar verða í grófum dráttum eftirfarandi:
– Öll heimili í dreifbýli fá tunnu fyrir almennan úrgang í júní 2014. Úrgangur úr henni verður hirtur á tveggja til þriggja vikna fresti.
– Öll heimili í dreifbýli fá kar fyrir endurvinnanlegt sorp í júní 2014.
Hirðing úr þeim körum verður annan hvern mánuð.
– Flokkunarstöðvar verða settar upp á sumarhúsasvæðum þar sem verða kör fyrir almennan úrgang og endurvinnanlegan úrgang.
– Grenndarstöðvarnar verða lagðar niður. Þær fyrstu verða fjarlægðar í júlí á þessu ári. Það verður ekki farið í þessar breytingar fyrr en innleiðingu er lokið á heimilum í dreifbýlinu.
– Lenging á opnunartíma móttökustöðvarinnar við Sólbakka í Borgarnesi frá miðju ári.
 
– Mönnuðum lokuðum móttökustöðvum verður fjölgað í áföngum. Ekki verður þó hafist handa við það nú í ár.
-Í tengslum við endurnýjun starfsleyfis fyrir Bjarnhóla, sem er urðunarstaður sveitarfélagsins fyrir óvirkan úrgang, verður svæðinu lokað með girðingu og eftirlit með losun elfd.
– Það liggur á að innleiða hirðu á jarðgeranlegum úrgangi en einhver bið er þó enn í að hafist verði handa við það. Þangað til af verður eru þeir sem það kunna og geta nýtt sér afurðina beðnir um að jarðgera sem mest heima hjá sér af garðarúrgangi og matarafgöngum. Það minnkar kostnað við úrgang sem fer í urðun og hefur þannig áhrif til lækkunar á sorphirðugjöldum.
 
Við þessar breytingar verður sorphirða í þéttbýli og dreifbýli með sambærilegum hætti. Í dreifbýli verður þessu til viðbótar haldið áfram að ná í rúlluplast heim að bæjum á hverju ári. Jafnframt verður íbúum reglulega boðið að taka þátt í umhverfisátaki þar sem losa sig má við timbur og járn eins og verið hefur.
Í sveitarfélaginu eru tæplega 1200 heimili í þéttbýli, tæplega 500 heimili í dreifbýli og tæplega 1300 sumarhús. Gert er ráð fyrir 40 flokkunarstöðvum á sumarhúsasvæðum og tveimur nýjum móttökustöðvum til viðbótar við þá sem er í Borgarnesi.
Afhentar verða upplýsingar um hvernig eigi að flokka í endurvinnslutunnurnar um leið og tunnurnar verða afhentar. Einnig má finna þessar upplýsingar undir sorphirða á heimasíðu Borgarbyggðar.
Nýtt sorphirðudagatal verður birt á heimasíðunni áður en hafin verður sorphirða í dreifbýli.
Hafa má samband við Björgu Gunnarsdóttur umhverfis- og landbúnaðarfulltrúa ef óskað er frekari upplýsinga með því að senda póst á netfangið bjorg@borgarbyggd.iseða hringja í síma 433-7100.
 
 
 

Share: