Breytingar í slökkviliðinu

desember 22, 2022
Featured image for “Breytingar í slökkviliðinu”

Þann 1. apríl nk. verða starfsmannabreytingar í Slökkviliði Borgarbyggðar. Bjarni K Þorsteinsson slökkviliðsstjóri til 23 ára mun færast úr því starfi og taka við stöðu aðstoðarslökkviliðsstjóra og verkefnastjóra. Heiðar Örn Jónsson núverandi aðstoðarslökkviliðsstjóri og eldvarnarfulltrúi mun taka við starfi slökkviliðsstjóra, er þetta gert með fullri sátt og samlindi þeirra félaga beggja.

Bjarni og Heiðar hafa unnið saman síðan árið 2019. Í sameiningu hafa þeir myndað gott teymi og lyft grettistaka í slökkviliðinu hér í Borgarbyggð og því afar gaman að þetta samstarf muni halda áfram.

Bjarni K Þorsteinsson tók fyrst til starfa árið 1977 að skipun Húnboga Þorsteinssonar þáverandi sveitarstjóra Borgarneshrepps, og starfaði síðan undir stjórn Hermanns Jóhannssonar þáverandi slökkviliðsstjóra. Bjarni hefur gegnt stöðu slökkviliðsstjóra síðan árið 1999 er hann tók við af Hermanni og hafði þá um fjögurra ára skeið á undan gengt starfi aðstoðarslökkviliðsstjóra. Bjarni hefur lifað tímanna tvenna á þessum vettvangi frá því að það var skylda manna að bregðast við þegar eldur varð laus og allsleysið var algert varðandi menntun, þjálfun og búnað og tæki og viðhorf manna.

Bjarni hefur á 23 árum byggt upp afbragðsgott og vel þjálfað og menntað slökkvilið sem er í fremstu röð í dag með sjö harðsnúnum konum í bland við karlana þar sem mannskapurinn hefur gleði og metnað til að viðhalda þeirri hugsjón að byggja upp til framtíðar. Slökkvilið í Borgarbyggð er hópur einstaklinga þar sem hver og einn treystir félaganum við störf sín sem metin hafa verið þau hættulegustu á friðartímum, þegar fólk hleypur út úr brennandi húsum hlaupa slökkviliðsmenn inn.

Árið 2023 þann 14. Október eru 100 ár liðin frá stofnun slökkviliðs Borgarneshrepps eins og liðið kallaðist þá og minnist Bjarni þeirra tímamóta.

  • Slökkvilið Borgarbyggðar er það slökkvilið sem er með hvað flest útköll á tækjabíl vegna klippuvinnu í umferðarslysum en slökkviliðið var eitt af þeim fyrstu til þess að fá í sína þjónustu vökvaknúnar klippur og björgunartæki og frá aldamótum 1999-2000 eru útköllin til dagsins í dag 154 talsins.
  • Skráð tilfelli það sem af er árinu 2022 eru 55.
  • Sameining sveitarfélaga og slökkviliða var mikil áskorun.
  • Eftirminnilegast á ferli Bjarna eru án efa Mýraeldar er brunnu vorið 2006 en þá brunnu 67 ferkílómetrar lands en allt fór þó vel og allir voru heilir eftir bardagann.
  • Húsnæðis og Mannvirkjastofnun var mikið framfaraskref fyrir málaflokkinn sannkallað risaskref varðandi allt utanumhald, menntun, þjálfun og viðhorf til málaflokksins.

Við þessi tímamót er Bjarna efst í huga mikið þakklæti fyrir það að allir hans menn hafa komið heilir frá útköllum og eins mikið þakklæti til frábærra samstarfsmanna í gegnum árin og eins til íbúa Borgarbyggðar og þeirra sveitarfélaga sem þjónustu Borgarbyggðar njóta, hafið öll hugheila þökk fyrir og þó svo að þessi breyting verði mun Bjarni láta sig málaflokkinn varða áfram.

 


Share: