Borgarbyggð og Menntaskóli Borgarfjarðar undirrita samning vegna Kviku

desember 23, 2022
Featured image for “Borgarbyggð og Menntaskóli Borgarfjarðar undirrita samning vegna Kviku”

Þann 21. desember var undirritaður samningur milli Borgarbyggðar og Menntaskóla Borgarfjarðar vegna aðgengis stofnana sveitarfélagsins að Kviku – skapandi rými í MB. Það voru þeir Bragi Þór Svavarsson skólameistari MB og Hlöðver Gunnarsson sviðsstjóri fjölskyldusviðs sem skrifuðu undir samninginn.

Samningurinn gildir í fimm ár og gerir stofnunum Borgarbyggðar kleift á að bóka tíma í Kviku og nota aðstöðuna sem er til staðar með aðstoð umsjónarmanns Kviku. Borgarbyggð fær að jafnaði 15 klukkustundir í Kviku í hverri viku og greiðir fyrir það fast mánaðargjald.

Eins og flestir vita þá er Kvika fyrsta flokks rými fyrir fjölbreytta og skapandi vinnu. Í Kvikunni er að finna mynd- og hljóðver ásamt þrívíddarprentara, laser skurðavél, vinylskurðarvélar og saumavélum til notkunar svo fátt eitt sé nefnt. Aðstaðan er fyrsta flokks og mun gagnast stofnunum Borgarbyggðar vel, en með samningi er verið að tryggja aðgang sveitarfélagsins að tækjum og hugbúnaði til nýsköpunar í þessu frábæra skapandi rými.

Borgarbyggð fagnar þessu samstarfi og gaman verður að fylgjast með afrakstri þessara vinnu í framtíðinni.


Share: