Börn í 100 ár opnuð fyrir sumarið

maí 31, 2010
Á morgun hefst sumaropnun sýningarinnar Börn í 100 ár, fastasýningar Safnahúss. Verður hún opin alla daga frá 13-18 fram til 1. september.
Sýningin er hönnuð af Snorra Frey Hilmarssyni leikmyndateiknara og hefur hlotið mikið lof þeirra sem hana hafa séð, ekki síst fyrir frumlegt og óvenjulegt sjónarhorn á sögu Íslands á 20. öld þar sem hún er tengd lífi og umhverfi barnanna í landinu. Hið sjónræna er haft í fyrirrúmi og ljósmyndir leika því stórt hlutverk. Sýningarhólf eru í veggjum og geta gestir opnað þau eins og á jóladagatali. Á sýningunni er einnig stillt upp gamalli baðstofu frá Úlfsstöðum í Hálsasveit auk þess sem gestir ganga um herbergi unglings í nútímanum; frá árinu 2008, hannað og innréttað af IKEA á Íslandi.
Sýningin Kaupmannsheimilið stendur yfir til 12. nóvember n.k. Hún er á efri hæð Safnhúss og verður opin á opnunartíma bókasafnsins, frá 13-18 alla virka daga. Aðrir tímar bókast eftir samkomulagi. Aðgangur að þeirri sýningu er ókeypis.
Bókanir á báðar sýningarnar fyrir hópa (leiðsögn) og nánari upplýsingar: 430 7200 eða safnahus@safnahus.is.
Á meðfylgjandi mynd má sjá börn að leik að legg og skel á sýningunni Börn í 100 ár síðastliðið sumar. Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir.
 
 

Share: