Borgfirskir rithöfundar kynntir í Safnahúsi

nóvember 8, 2010
Í síðustu viku kom hópur eldri borgara frá Akranesi í sérstökum erindagjörðum í Safnahús. Um var að ræða bókmenntaklúbb, sem hafði beðið um kynningu á þremur borgfirskum skáldum, þeim Guðmundi Böðvarssyni, Þorsteini frá Hamri og Böðvari Guðmundssyni. Af þessu tilefni var sett upp sérstök dagskrá fyrir hópinn þar sem flutt voru erindi, lesnir upp textar og hlustað á tóndæmi. Að því loknu var flutt stutt kynning á Pálssafni og safnið skoðað í framhaldinu.Því næst var sýningin Börn í 100 ár skoðuð og fengin leiðsögn um hana.
Þessi bókmenntakynning tókst vel í alla staði og líkur eru á að klúbburinn geri sér aðra ferð að ári til að fá fræðslu um fleiri borgfirska höfunda.
 
Það hefur verið markviss stefna Safnahúss að safna heimildum eftir höfunda úr héraði og hefur þegar mikið áunnist í þeim efnum. Þegar fram líða stundir verður efnið sett á heimasíðu Safnhúss þar sem það verður aðgengilegt fyrir áhugasama um borgfirskar bókmenntir.
 
Á myndinni er verið að skoða sérstaka uppstillingu á verkum höfundanna þriggja, en þar á meðal voru tvö ljóð í eiginhandarhandriti Guðmundar Böðvarssonar sem eru í vörslu héraðsskjalasafnsins og voru þau höfð undir gleri ásamt ljósriti af síðu úr Lesbók Morgunblaðsins frá árinu 1926, þar sem fyrst var birt ljóð eftir Guðmund Böðvarsson á prenti.
 
Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir
 

Share: