Borgarfjarðardeild RKÍ gefur íþróttamiðstöðinni súrefnisgjafatæki

maí 13, 2004
Ragnhildur Kristín og Geir afhenda Indriða íþróttafulltrúa gjöfina.
 
Á kynningu á samstarfi Íþróttamiðstöðvarinnar í Borgarnesi og Heilsulindarsamtaka Reykjavíkur og nágrennis í markaðsmálum sem haldin var í Óðali á dögunum kom Borgarfjarðardeild Rauða kross Íslands færandi hendi og afhenti forsvarsmönnum íþróttamiðstöðvarinnar að gjöf sérhæft súrefnisgjafatæki fyrir sundstaði.
Við sama tækifæri fögnuðu menn því að enn einu sinni var nýtt met slegið í íþróttamiðstöðinni varðandi gestakomur á en á síðasta ári var aukning gesta um 15.000 manns frá því árið á undan, en samtals voru gestakomur í mannvirkið 167 þús. talsins á síðasta ári.
Því er ljóst að þar sem svona margir koma saman er ákveðin hætta á slysum og því mikilvægt að búa sem best að tækjakosti og kunnáttu starfsfólks í fyrstu hjálp.
Vonandi þarf aldrei að nota þessa góðu gjöf en Borgarfjarðardeild Rauða krossins er þakkað höfðinglegt framlag til öryggismála ÍÞMB.
ij.
 

Share: