Borgarbyggð hlýtur styrk úr Menningarborgarsjóði

mars 12, 2002

Tilkynnt var um úthlutun úr Menningarborgarsjóði árið 2002 við formlega athöfn í Listasafni Reykjavíkur mánudaginn 11. mars. Verkefnið Sögur og samfélög sem Borgarbyggð er í forsvari fyrir hlaut 800.000 króna styrk og er það einn af hæstu styrkjunum í ár. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum, en hann var stofnaður í ársbyrjun 2001. Hlutverk Menningarborgarsjóðs er að stuðla að fjölbreytilegu menningarstarfi um allt land og að þessu sinni var úthlutað til nýsköpunarverkefna á sviði lista, menningarverkefna á vegum sveitarfélaga og menningarverkefna fyrir börn og ungt fólk.

Auk styrksins úr Menningarborgarsjóði hefur Borgarbyggð hlotið 8 milljón króna styrk úr Culture-2000 sjóði Evrópusambandsins til þessa verkefnis.

Verkefnið Sögur og samfélög fjallar um sagnaritun og sagnagerð fyrri tíma og hvernig umhverfið mótaði og var mótað af sagnagerð, jafnvel öldum saman. Markmið verkefnisins er að ná saman fræðimönnum margra landa til þess að fá dýpri skilning á samspili sagnanna og samfélaganna sem þær skópu og varðveittu. Vinna við verkefnið hófst formlega í október 2001 og mun standa yfir í 1 ár. Hápunktur verkefnisins er alþjóðleg ráðstefna sem verður haldin í Borgarnesi 5. – 9. september 2002. Samhliða ráðstefnunni verða settar upp sýningar og menningarviðburðir tengdir Egilssögu, vefsíða verkefnisins verður opnuð, en henni er ætlað að vera vettvangur umræðna um þessi viðfangsefni, og gefið verður út ráðstefnurit að ráðstefnunni lokinni.
Samstarfsaðilar Borgarbyggðar eru frá norrænu deild háskólans í Tübingen í Þýskalandi og Bókmenntastofnun Eistlands. Ennfremur taka þátt í verkefninu Safnahús Borgarfjarðar, Snorrastofa í Reykholti og Reykjavíkurakademían.
Gert er ráð fyrir allt að 100 þátttakendum á ráðstefnuna víðsvegar að úr heiminum og nú þegar hafa á sjötta tug fyrirlesara tilkynnt þátttöku sína. Það má því búast við mikilli menningarhátíð í Borgarnesi og nærsveitum á komandi hausti.


Share: