Eins og kunnugt er var nýlega undirritaður samningur milli Borgarbyggðar og Íslandsbanka um kaup Borgarbyggðar á mennta- og menningarhúsinu í Borgarnesi.
Upphaflega var húsið í eigu Fasteignafélagsins Menntaborgar. Áhersla var lögð á að fasteignin kæmist í eigu sveitarfélagsins enda þótti það farsæl lausn fyrir alla aðila og raskaði ekki starfsemi Menntaskóla Borgarfjarðar.
Páll S. Brynjarsson sveitarstjóri segist ánægður með þessa niðurstöðu, hún sé hagstæð fyrir sveitarfélagið og mikilvæg fyrir alla þá fjölbreyttu starfsemi sem rekin er í húsinu. En auk þess að hýsa Menntaskóla Borgarfjarðar, Dansskóla Evu Karenar, Ungmennahús og skrifstofu RÚV á Vesturlandi er glæsileg aðstaða fyrir sviðslistir, tónleika og ráðstefnuhald í húsinu. Efnt var til samkeppni um nafn á húsið og heitir það nú Hjálmaklettur.
Meðfylgjandi mynd er tekin við undirritun samninganna, en á myndinni sjást fulltrúar Íslandsbanka og sveitarfélagsins Borgarbyggðar.