Borgarbyggð fundar með fulltrúum HVE um stöðu mála í Borgarnesi

júlí 8, 2021
Featured image for “Borgarbyggð fundar með fulltrúum HVE um stöðu mála í Borgarnesi”

Í dag, 8. júlí, áttu fulltrúar byggðarráðs Borgarbyggðar og sveitarstjóri fund með fulltrúum Heilbrigðisstofnun Vesturlands, þ.e. framkvæmdastjóra hjúkrunar og framkvæmdastjóra fjármála, staðgengli forstjóra, vegna læknamönnunar starfsstöðvar HVE í Borgarnesi. Fundurinn er liður í samtali Borgarbyggðar við Heilbrigðisstofnunina HVE, en í apríl sl. var fyrst fundað að beiðni Borgarbyggð þar sem leitað var svara við spurningum og boðið upp á aukið samtal og stuðning sveitarfélagsins við heilbrigðisstofnunina í þeirri vegferð að fullmanna heilsugæsluna í Borgarnesi.

Auglýst hefur verið eftir yfirlækni og það umsóknarferli er í gangi. Einnig hefur verið auglýst eftir fleiri læknum, bæði á starfatorgi og á samfélagsmiðlasíðum lækna sem og á vef læknafélagsins. Í gangi eru nú viðræður við lækna sem sýnt hafa starfinu áhuga.

Fulltrúar Borgarbyggðar og Heilbrigðisstofnunar Vesturlands eru sammála því að alvarleg staða yrði uppi ef ekki tækist að ráða lækna og hjúkrunarfræðinga til stofnunarinnar. Sveitarfélagið og heilbrigðisstofnunin hafa áhuga á að vinna saman og vekja athygli mögulegra umsækjanda á kostum þess að búa og starfa í Borgarbyggð, kostunum við að starfa við heilsugæslustöðina og leita leiða til að gera vinnuumhverfið meira heillandi og í samræmi við nútíma samfélag. Ef þörf þykir á grunnbreytingum á vinnuumhverfi þyrfti alltaf að vinna það í samráði við ráðuneytið.

Þess ber að geta að heilsugæslan í Borgarnesi er ekki eina heilsugæslan á landsbyggðinni sem stendur frammi fyrir þessu verkefni heldur er það orðið nokkuð algengt að illa gangi að ráða lækna í fastar stöður á heilsugæslustöðvar landsins. Ýtir þetta undir þær hugmyndir að það þurfi að þróa og gera gagngerar breytingar á vinnuumhverfi heilbrigðiskerfisins. Framkvæmdarstjórn HVE vinnur að því að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að laga stöðuna og vonar að þær aðgerðir skili árangri.

Heilsugæslan í Borgarnesi sinnir mjög fjölbreyttu hlutverki og veitir íbúum góða þjónustu, þó svo að skortur hafi verið á fastráðnum læknum um árabil. Starfsfólk heilsugæslunnar er gott, hæfileikaríkt og hefur mikinn metnað til þess að sinna íbúum sveitarfélagsins vel og því ber að fagna.

 

 


Share: