Það hefur ekki farið fram hjá neinum að slitlagið á Borgarbrautinni er að mörgu leyti orðið stagbætt eins og gömul flík. Að sumu leyti er staðan afleiðing af þeim miklu framkvæmdum sem eiga sér stað við Borgarbraut 57 og 59 en að öðru leyti er um eðlilega viðhaldsþörf að ræða. Sveitarfélagið hefur lagt sig fram um að fylla í þær holur sem hafa myndast þegar þörf hefur verið á. Nú fellur Borgarbrautin ekki undir það sem kallast venjuleg gata heldur var hún þjóðvegur í þéttbýli. Því ber Vegagerðin nokkra ábyrgð á henni ennþá. Borgarbrautin fellur undir það sem kallast „skilavegur“ þar sem hún er orðinn hluti af gatnakerfi Borgarness. Vegagerðin mun hins vegar skila Borgarbrautinni í góðu ástandi. Því verður hún malbikuð í tveimur áföngum frá gatnamótum við Vegagerðina niður að Egilsgötu í ár og á næsta ári. Áætlað er að malbika í sumar frá gatnamótunum suður að hallanum við Hjálmaklett og ljúka verkinu þaðan niður að Egilsgötu á næsta ári. Að því loknu verður hún komin í gott ástand sem gera verður kröfu til að meginsamgönguæð þéttbýlisins sé í.