Borgarbraut 57 – 59, staða mála

september 29, 2016
Featured image for “Borgarbraut 57 – 59, staða mála”

Eins og komið hefur fram í fréttum þá felldi Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindarmála föstudaginn 23. september sl. úr gildi breytingu á deiliskipulagi vegna lóðanna að Borgarbraut 55-59 sem samþykkt var af sveitarstjórn Borgarbyggðar þann 14. apríl sl. Starfsfólk umhverfis- og skipulagssviðs Borgarbyggðar hefur unnið að því að bregðast við niðurstöðunni á sem markvissastan hátt. Þriðjudaginn  27. september sl. var haldinn fundur í ráðhúsinu vegna úrskurðar Úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála með fulltrúum aðila málsins bæði af hálfu framkvæmdaaðila og sveitarfélagsins. Á fundinum var farið yfir stöðu málsins í kjölfar úrskurðar nefndarinnar. Allir aðilar voru sammála um að leita leiða til að bregðast við niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar á þann hátt að tafir verði sem minnstar á verkinu. Fyrir liggur að eftir að sú breyting sem samþykkt var af sveitarstjórn á deiliskipulagi Borgarbyggðar þann 14. apríl sl. hefur verið felld úr gildi þá gildir nú það deiliskipulag sem gilti fram að fyrrgreindri samþykkt. Viðbrögð verða miðuð út frá þeirri forsendu.

Vinna hefst nú við breytingu á aðalskipulagi og má reikna með að það ferli taki að lágmarki 3 mánuði. Næstu daga munu verktakar vinna að því að ganga frá byggingarstaðnum þannig að fyllsta öryggis verði gætt þar til verkframkvæmdir geta haldið áfram.


Share: