Á fundi byggðarráðs þann 18. október 2018 voru lagðar fram til kynningar tvö erindi frá Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis. Þau voru tillaga til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2019 – 2023 og tillaga til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2019 – 2033. Óskað var umsagnar sveitarfélagsins um fyrrgreindar tillögur. Sveitarstjóra var falið að undirbúa umsögn fyrir næsta fund byggðarráðs. Þar sem fyrrgreindar tillögur eru svo nátengdar er sá kostur valinn að fjalla um þær í einni umsögn.
Umsögn Byggðarráðs um framlagðar tillögur að samgönguáætlun:
Borgarbyggð er með landstærstu og víðfeðmustu sveitarfélögum landsins. Það gefur sveitarfélaginu ákveðna sérstöðu á landsvísu. Ein af sérstöðu sveitarfélagsins er hve búseta er dreifð um sveitarfélagið. Því er vegakerfi mjög umfangsmikið innan þess. Miklu máli varðar að samgöngur séu greiðar í svo landstóru sveitarfélagi, hvort sem er fyrir íbúa í dreifbýlinu til að sækja atvinnu eða þegar þörf er á að að veita þeim margháttaða þjónustu. Um 60% vega á Vesturlandi eru ekki lagðir bundnu slitlagi. Stór hluti þessara malarvega eru innan Borgarbyggðar. Í allri þeirri umræðu um að þörf sé á að leggja sérstaka áherslu á að taka þurfi sérstakt tillit til aukningar á ferðamannastraumi til landsins við áherslur um aðgerðir í vegamálum þá má ekki gleyma því að vegir eru einnig og ekki síður fyrir þá íbúa sem landið byggja. Um 300 km. af vegakerfi Borgarbyggðar eru malarvegir. Víða er ástand þeirra mjög slæmt. Með grófri nálgun má færa að því rök fyrir því að skólaakstur fari fram á um helmingi þessara vega. Þjónusta þarf mjólkurframleiðendur reglubundið á álíka löngum malarvegum. Akstur skólabíla og mjólkurbíla fer þó alls ekki alltaf saman. Mikið af malarvegum og þá sérstaklega á Mýrunum eru illa uppbyggðir og illa viðhaldnir troðningar.
Byggðarráð Borgarbyggðar mótmælir harðlega hve litlir fjármunir eru lagðir til uppbyggingar vegakerfisins innan Borgarbyggðar í langtímaáætlun í samgöngumálum. Ekki er gert ráð fyrir að lagðir séu fjármunir til að ljúka Uxahryggjavegi fyrr en eftir 5-10 ár. Sú leið er gríðarlega mikilvæg hvað varðar bættar samgöngur milli Vesturlands og Suðurlands. Síðan er svokölluð „hjáleið“ framhjá Borgarnesi sett inn á samgönguáætlun eftir 10-15 ár.
Þessi framkvæmd hefur verið inni á samgönguáætlun um áratuga skeið en án þess að af framkvæmdum hafi orðið. Hæpið er því að búast við að úr henni verði á þessu tímabili frekar en á liðnum áratugum. Með hliðsjón af framansögðu þá er ekki að sjá að neinar framkvæmdir í uppbyggingu vega í Borgarbyggð séu fyrirhugaðar á næstu 15 árum þrátt fyrir gríðarlega langt malarvegakerfi sem að verulegu leyti er í mjög lélegu ástandi.
Í samantekt þeirri sem SSV hefur nýlega kemur fram að einungis eigi að leggja 500 m.kr. til nýframkvæmda á Vesturlandi á næstu fimm árum. Það er algerlega óviðunandi niðurstaða. Fjárveitingar til tengivega eru einnig óásættanlegar miðað við umfang og ástand malarvega í sveitarfélaginu.
Þegar litið er til samgönguáætlunarinnar í heild sinni þá vaknar sú spurning hvort eðlilegt sé að setja Vesturland og Vestfirði í einn flokk sem nefnist Vestursvæði. Miklir fjármunir renna til þessa svæðis í samgönguáætlun þeirri sem kynnt hefur verið. Að langstærstum hluta til renna þeir til Vestfjarða vegna þeirra umfangsmiklu framkvæmda sem þar standa yfir eða eru fyrirhugaðar. Ekki skal á nokkurn hátt dregið úr nauðsyn fyrirhugaðra vegabóta á Vestfjörðum. Það kæmi á hinn bóginn miklu skýrar í ljós í þeim tillögum að samgönguáætlun sem lögð hefur verið fyrir Alþingi, hve litla fjármuni er fyrirhugað að leggja í vegaframkvæmdir á Vesturlandi á komandi árum, ef Vesturland stæði eitt og sér í áætluninni.