Barnamenning, tónlistarnám og Söngvakeppni sjónvarpsins

febrúar 21, 2023
Featured image for “Barnamenning, tónlistarnám og Söngvakeppni sjónvarpsins”

Fyrir stuttu var tekin sú ákvörðun að fela Listaskólanum/tónlistarskólanum í Borgarbyggð að halda utan um framkvæmd Barnamenningarhátíðar í Borgarbyggð og nágrenni árið 2023. Stefnt er á að halda hátíðina í maí og munu allir sem starfa með börnum og ungmennum geta haft aðkomu og áhrif á framkvæmdina og innihald hátíðarinnar. Allir áhugasamir eru beðnir um að koma hugmyndum og ábendingum til skólastjóra tónlistarskólans sem kemur þeim áfram inn í fyrirhugaðan bakhóp hátíðarinnar, netfangið er tonlistarskoli@borgarbyggd.is.

Starfsfólk tónlistarskólans eru afskaplega stolt af sínum manni , Árna Frey Jónssyni gítarkennara, en hann er í hljómsveitinni Celebs og hefur verið að undirbúa sig fyrir íslensku undankeppnina í Eurovision. Systkinin þrjú í Celebs eru auðvitað mest í sviðsljósinu en okkar maður studdi þétt við þau á gítarnum eins og sést á myndinni. 

Það er margt í gangi þessa dagana í tónlistarskólanum og það gerast lítil undur á hverjum degi. Því þó skrefin séu stundum smá frá degi til dags þá hefur mörgum farið mjög fram frá því að kennsla hófst eftir áramótin. Tónstigar taka hér stakkaskiptum í hverri viku og æft er stíft fyrir próf hjá þeim sem stefna á slíkt. Tónfræðinemendur kúra sig ákafir yfir tölvur/síma í tónfræðitímum og háma í sig veflægt tónfræðinámsefnið sem við notum núna.

Fjöldi stúdíónemenda hefur tvöfaldast frá því í haust og eru þeir nú sex talsins. Samspil rokksveitar er nýhafið og húsið titrar einu sinni í viku í takt við klassísk dægurlög síðustu aldar.

Og eins og áður þá er besta gjöfin til tónlistarnemandans að hlusta á verkefnin hans heima og sýna lifandi áhuga á framförunum og spilagleðinni!

Sem sagt margt spennandi í gangi!


Share: