Bætt ástand áfangastaða innan friðlýstra svæða í Borgarbyggð

mars 11, 2019
Featured image for “Bætt ástand áfangastaða innan friðlýstra svæða í Borgarbyggð”

Umhverfisstofnun kynnti nýverið ástandsmat áfangastaða innan friðlýstra svæða árið 2018. Þar er fjallað um ástand þekktra áfangastaða víðs vegar um landið sem eru undir álagi vegna gestasóknar.

Ánægjulegt er að geta þess að svæði innan Borgarbyggðar eru innan ásættanlegra marka, og ekkert þeirra friðlýstu svæða sem eru innan sveitarfélagsins lendir á appelsínugulum eða rauðum lista.

Mesta athygli vekur að Grábrók er komin á grænan lista, en hefur undanfarin ár verið á appelsínugulum og rauðum lista. Aðrir fjölsóttir staðir innan sveitarfélagsins, svo sem Eldborg, Hraunfossar/Barnafoss og Húsafell, fá jafnframt hærri einkunn heldur en árið áður. M.a. hefur verið unnið að endurbótum við stíga og bílastæði ásamt mosauppgræðslu á þessum stöðum síðan ástandsmat var síðast framkvæmt.

Sveitarfélagið getur verið stolt af sínum fallegu áfangastöðum og það er fagnaðarefni að þróunin sé í jákvæða átt. Þá er einkar jákvætt að starf svæðalandvarðar Umhverfisstofnunar á Vesturlandi sé nú orðið heilsársstarf, og að áframhaldandi uppbygging á friðlýstum svæðum sé ráðgerð m.a. í gegnum Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.

Skýrsla Umhverfisstofnunar í heild sinni:

https://ust.is/library/Skrar/utgefid-efni/astand-fridlystra-svaeda/%C3%81standsmat%20fer%C3%B0amannasta%C3%B0a%20innan%20fri%C3%B0l%C3%BDstra%20sv%C3%A6%C3%B0a-2018.pdf

Share: