Bændur – sýning í Landnámssetri

júní 23, 2011
Sunnudaginn 26. júní kl. 16.00 verður opnuð myndlistarsýning á verkum Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur í Hvíta sal Landnámssetursins en það er salurinn á fyrstu hæð veitingahússins Búðarkletts.
Aðalheiður er gestum Landnámsseturs að góðu kunn en hún er höfundur 5 stærstu myndverkanna í sýningunni um Egil Skallagrímsson í kjallara Pakkhússins.
Allir eru velkomnir við opnunina og aðgangur er ókeypis.
 
 
Aðalheiður segir um verkin sín:
Frá upphafi ferils míns hef ég leitast við að endurgera eftirminnileg augnablik úr eigin lífi, persónur eða bæjarbrag. Sett upp mynd af samfélagi manna og dýra í tilraun til að minna okkur á hvaðan við komum og hver við erum. Einskonar brú milli veruleika og ímyndunar í samfélagi sem er of upptekið til að staldra við og njóta.

Þannig varð til ættbálkur blökkufólks sem öll báru liti íslenska fánans. Flokkur manna sem allir versluðu í sömu herrafataverslun í Reykjavík, og annarskonar flokkur álfta sem höfu aðsetur í tjarnarhólmanum á Vetrarhátíð. Hrafnar sem námu land í Amsterdam og ferðafélagarnir Ísbjörn, Hreindýr og Sauður fóru til Lapplands með viðkomu í Reykjavík. Siglfirðingar sem slógu hring um torgið og fluttu það til Seyðisfjarðar, síðan aftur heim og þá á bryggjuna í Bátahúsinu við Síldarminjasafnið. Kettir reygðu sig og teygðu á Safnasafninu eitt sumar en viku fyrir dvergunum sem áðu þar á sérsmiðuðum palli. Gestir kaffi Karólínu horfðust í augu við sjálfa gesti kaffi
Karólínu og listamenn Listasumars ´95 gengu framhjá sjálfumsér í Glugganum í göngugötunni þar sem brúðarfylkingin stormaði í rigningu á vinnustofuna til móts við stöllur sínar.

Share: