Atvinnuátak í Borgarbyggð í sumar

maí 28, 2009
Á fundi sínum 6. maí síðastliðinn ákvað Byggðaráð Borgarbyggðar að efna til atvinnuátaks í Borgarfirði í samstarfi við Vinnumálastofnun. Um verður að ræða átaksverkefni á sviði skógræktar, fegrunar umhverfis og varðveislu menningarverðmæta.
Átak þetta er unnið í samræmi við reglugerð Félags- og tryggingamálaráðuneytis frá 9. janúar 2009 um „…reglugerð um þátttöku atvinnuleitenda sem tryggðir eru innan atvinnuleysistryggingakerfisins í vinnumarkaðsaðgerðum og um búferlastyrki.“
Í reglugerðinni felst að fyrirtæki, sveitarfélög, stofnanir og frjáls félagasamtök geta fjölgað starfsmönnum með þátttöku í vinnumarkaðsúrræðum. Atvinnurekandinn greiðir einstaklingum laun samkvæmt gildandi kjarasamningum en á móti þeim greiðslum greiðir Vinnumálastofnun grunnatvinnuleysisbætur einstaklingsins ásamt 8% mótframlagi í lífeyrissjóð. Ætíð skal um aukningu á starfsmannafjölda að ræða og gildir slíkur samningur að hámarki til 6 mánaða. Auk átaksverkefna tekur reglugerðin m.a. til starfsþjálfunar og reynsluráðninga. Hér gætu ýmsir möguleikar leynst fyrir atvinnurekendur og atvinnuleitendur á svæðinu.
 
 

Share: