Áskorun og ákall vegna Brákareyjar

nóvember 5, 2021
Featured image for “Áskorun og ákall vegna Brákareyjar”

Í upphafi árs þurfti sveitarfélagið að grípa til þeirra ráðstafana að loka starfsemi Brákarbraut 25-27 um óákveðinn tíma í kjölfar krafna frá eldvarnareftirliti Slökkviliðs Borgarbyggðar og byggingarfulltrúa sveitarfélagsins. Niðurstöður úttektar voru sláandi og deildu hlutaðeigandi áhyggjum sínum á fundi byggðarráðs í febrúar sl. Eftirlitsaðilar gerðu þá kröfu að lokað yrði á starfsemi í húsnæðinu. Fulltrúar allra leigutaka voru boðaðir á fund þegar niðurstaðan lá fyrir og þeim greint frá niðurstöðum úttektarinnar. Fyrirvarinn á lokuninni var stuttur en jafnframt nauðsynlegur því það þurfti að bregðast hratt við þar sem ekki var hægt að tryggja öryggi og heilsu þeirra sem nýttu húsnæðið. Sveitarfélagið hafði ekki annarra kosta völ en að fara að kröfum eftirlitsaðila í málinu, og hefur sveitarfélagið eða sveitarstjórn ekki heimild til þess að breyta einhliða ákvörðunum eftirlitsaðila.

Í kjölfar þessara viðburða hófst tvíþætt vinna. Viðamikil greiningarvinna fór fram innan stjórnsýslunnar til þess að athuga hvort gerðar hefðu verið úttektir á húsnæðinu áður og ef svo væri hvers vegna þær hefðu ekki fengið áheyrn. Slökkviliðsstjóri hafði sent sveitarfélaginu erindi vegna húsnæðisins á árunum 2012-2015 en þær niðurstöður voru ekki lagðar fyrir byggðarráð. Um er að ræða mistök af hálfu sveitarfélagsins og skort á verklagsreglum og hefur verið brugðist við því með því að gera boðleiðir skýrari og tryggja að mál af þessu tagi fái viðeigandi málsmeðferð innan stjórnsýslunnar.

Byggðarráð ákvað að láta kostnaðarmeta hugsanlegar úrbætur á húsnæðinu og fékk verkfræðastofuna Verkís til að meta hvaða lágmarksendurbætur þyrfti að gera á húsnæðinu til að starfsemi gæti aftur farið þar fram. Sérfræðingar Verkís mátu það svo að það myndi kosta sveitarfélagið rúmar 654 milljónir að láta laga, og í sumum tilvikum rífa húsnæði til þess að það uppfyllti skilyrði um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, þ.e. þau skilyrði sem sett eru fram af eldvarnarfulltrúa og byggingarfulltrúa. Skýrsluna má nálgast hér. Sveitarfélagið telur því miður ekki raunhæft að standa fyrir slíku viðhaldi á húsnæði sem ekki tengist lögbundnu hlutverki sveitarfélagsins. Fyrir liggur að verulegar fjárfestingar þarf að fara í á næstu árum í leikskóla-, grunnskóla- og íþróttamannvirkjum, sem þyrfti að fresta ef ganga ætti í svo viðamikið verkefni sem endurbætur á Brákarbraut 25-27 myndu útheimta.

Í húsnæðinu var mikil menningararfleið í formi tómstundaiðkunar íbúa sem má ekki glatast og því hafa samtöl átt sér stað milli sveitarfélagsins og leigutaka en nú nýlega barst sveitarfélaginu áskorun um að leita leiða til að endurvekja starfsemi í gamla sláturhúsinu.

Ljóst er að ekki er hægt að verða við þeirri kröfu í núverandi mynd en byggðarráð hefur samþykkt notkun Golfklúbbs Borgarness að sal í Hjálmakletti auk þess sem tekið hefur verið jákvætt í erindi golfklúbbsins um aðkomu sveitarfélagsins að uppbyggingu lýðheilsustöðvar að Hamri. Fornbílafjelagi Borgarfjarðar hefur verið boðið að borðinu um samtal um kaup á hluta fasteignar Borgarbyggðar að Brákarbraut 27 að vissum skilyrðum uppfylltum, Skotfélagi Vesturlands verið boðin aðstaða til uppbyggingar til umsóknar og Raftar eru að skoða mögulegt húsnæði í eigu sveitarfélagsins.

Það einlægur vilji sveitarfélagsins að þessi mikilvægu félagasamtök haldi starfsemi sinni áfram í nýju húsnæði og standa vonir til þess að hægt sé að vinna að ásættanlegum lausnum saman.

 


Share: