Ársreikningur Borgarbyggðar 2007

apríl 21, 2008
Ársreikningur Borgarbyggðar fyrir árið 2007 var lagður fram til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar þann 17. apríl sl. en seinni umræða verður á sveitarstjórnarfundi þann 8. maí nk. Niðurstaða ársreikningsins ber með sér að rekstur Borgarbyggðar er á traustum grunni, rekstrarniðurstaða er jákvæð um tæplega 42 milljónir og veltufé frá rekstri er 10,7% af rekstrartekjum sveitarfélagsins, sem er töluvert hærra en áætlað hafði verið.
Rekstrartekjur Borgarbyggðar árið 2007 voru 2.176 milljónir, rekstrarútgjöld án fjármagnsliða 2.052 milljónir og fjármagnsgjöld 82 milljónir. Þegar litið er á rekstur einstakra sjóða er aðalsjóður með jákvæða rekstrarniðurstöðu um rúmlega 121 milljón eða 24 milljónum hærri en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Skatttekjur voru 67 milljónum hærri en áætlað var og fjármagnstekjur 8 milljónum hærri en á móti var rekstur einstakra málaflokka og lífeyrisskuldbindinga töluvert umfram áætlun, t.d. voru lífeyrisskuldbindingar tæplega 29 milljónum króna hærri en ráðgert var. Rekstur eignasjóðs var neikvæður um tæplega 67 milljónir eða 37 milljónum hærri en fjárhagsáætlun ráðgerði, þar munar mestu um viðhald fasteigna sem var um 75 milljónir árið 2007 en það var umtalsvert hærra en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Sorphirða var rekin með tæplega 5 milljóna króna neikvæðri niðurstöðu og félagslegar íbúðir með tæplega 11 milljón króna neikvæðri rekstrarniðurstöðu.
Borgarbyggð fjárfesti fyrir tæplega 296 milljónir árið 2007, stærstu framkvæmdirnar voru nýr leikskóli við Ugluklett í Borgarnesi, sparkvellir á Hvanneyri, Bifröst og Laugagerði og fráveituframkvæmdir. Umtalsverð breyting varð jafnframt á eignarhlutum Borgarbyggðar í félögum því á árinu 2007 fjárfesti sveitarfélagið í 500 milljóna króna stofnfé í Sparisjóði Mýrasýslu, auk þess var hlutfé í Menntaskóla Borgarfjarðar og Reiðhöllinni við Vindás aukið og loks eignaðist Borgarbyggð 157 milljóna hlut í Lánasjóði sveitarfélaga ohf. við eignarhaldsbreytingu á sjóðnum. Samtals var eignaaukning í félögum tæplega 709 milljónir króna árið 2007.
Eignir Borgarbyggðar í árslok 2007 voru samtals 4.163 milljónir, skuldir og skuldbindingar voru 2.887 milljónir og eigið fé því 1.276 milljónir eða 0,33% af heildarfjármagni, sem er hækkun frá fyrra ári. Handbært fé Borgarbyggðar í árslok 2007 voru rúmar 134 milljónir króna sem er lækkun um 208 milljónir frá fyrra ári.
Nánari upplýsingar veitir Linda B. Pálsdóttir fjármálastjóri í síma 433-7100
 

Share: