Arion banki færir skólum í Borgarbyggð veglega tölvugjöf

október 12, 2015
 
Arion banki færði í gær sveitarfélaginu Borgarbyggð tölvugjöf ætlaða til notkunar í grunn- og leikskólum sveitarfélagsins. Um er að ræða notaðan tölvubúnað; 30 tölvur og 70 skjái. Bernhard Þór Bernhardsson, svæðisstjóri Arion banka á Vesturlandi, hafði orð á því við afhendinguna að upplýsingatækni væri ekki síður mikilvæg í uppbyggingu nútíma skólastarfs en í starfsemi fjármálafyrirtækja. Hann bætti því við að þó tölvurnar væru ekki lengur nægilega öflugar til keyra kerfi bankans væru þær vel nothæfar til flestra annarra hluta og því upplagt að nota þær innan veggja skólanna. Það væri von starfsmanna bankans að þessi búnaður nýttist vel í skólastarfi í héraðinu.
Kolfinna Jóhannesdóttir sveitarstjóri, sem veitti gjöfinni viðtöku fyrir hönd Borgarbyggðar, sagði að búnaðurinn kæmi sér vel fyrir skólana og þakkaði starfsmönnum þann hlýhug og stuðning við samfélagið sem sýndur væri með gjöfinni.
 

Share: