Andabær – skóli á grænni grein

desember 5, 2017
Featured image for “Andabær – skóli á grænni grein”

Andabær fékk afhentan Grænfánann í 7. sinn mánudaginn 4 desember. Leikskólinn er því skóli á grænni grein.

Haustið 2004 ákvað starfsfólk Andabæjar að ganga í það verkefni að gera skólann að „Skóla á grænni grein.“  Starfsfólk leikskólans var duglegt að koma með hugmyndir að markmiðum til að vinna að ásamt því sem börnin tóku virkan þátt í samverustundum og hópastarfi. Þann 25. maí 2005 fékk leikskólinn svo afhentan Grænfánann í fyrsta sinn.

Skólar á grænni grein (Eco-Schools) eru alþjóðlegt verkefni sem menntar milljónir nemenda í 67 löndum víðsvegar um heim í sjálfbærni og umhverfisvernd. Verkefnið byggir á lýðræðismenntun og getu til aðgerða.

Skólar á grænni grein fylgja sjö skrefa ferli sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Ef skólinn nær markmiðum sínum fær hann að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.

Verkefnið hefur víðtæk áhrif og taka skólar ábyrga afstöðu í málum sem snerta umhverfið. Með því að innleiða raunhæfar aðgerðir og vinna á markvissan hátt að sjálfbærni í skólanum sýnir reynslan að skólar geta sparað talsvert í rekstri.


Share: