Ályktun vegna uppbyggingar stóriðju á Grundartanga

október 15, 2002
Borgarbyggð, Akraneskaupstaður, Borgarfjarðarsveit, Skorradalshreppur, Innri-Akraneshreppur, Skilmannahreppur, Hvalfjarðarstrandarhreppur og Leirár- og Melahreppur hafa gefið út sameiginlega ályktun vegna uppbyggingar stóriðju á Grundartanga.
 
Ályktunin er svohljóðandi:
 
„Sveitarstjórnir ofangreindra sveitarfélaga fagna þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað hjá Norðuráli á Grundartanga undanfarin ár um leið og þær vekja athygli á mikilvægi fyrirtækisins á svæðinu m.t.t. atvinnuuppbyggingar og jákvæðrar þróunar mannlífs í víðasta skilningi. Um leið eru þeir aðilar, sem fjalla um málefni stóriðju og virkjana á opinberum vettvangi, hvattir til að fjalla á hlutlausan og uppbyggilegan hátt um þá kosti sem íslensk stóriðja felur í sér fyrir byggðir landsins. Varðandi fyrirhugaða stækkun Norðuráls á Grundartanga lýsa stjórnir þessara sveitarfélaga sig reiðubúnar til að uppfylla að fremsta mætti þær skyldur sem að sveitarfélögum snúa og af þeim er krafist vegna fyrirsjáanlegrar fjölgunar íbúa og atvinnutækifæra í landshlutanum.
Sveitarstjórnir á sunnanverðu Vesturlandi eru meðvitaðar um þýðingu uppbyggingar atvinnulífsins við Grundartanga og mikilvægi þess fyrir byggðirnar á Vesturlandi og leggja því ríka áherslu á að greitt verði fyrir því að Norðurál á Grundartanga fái alla þá fyrirgreiðslu sem nauðsynleg er af hálfu hins opinbera, í tengslum við fyrirhugaðar stækkanir, enda þjóðhagsleg áhrif fyrirtækisins mjög mikil og jákvæð.

Með ályktuninni fylgir svohljóðandi greinargerð:
 
Tvær veigamiklar breytingar urðu nær samtímis í lok 10. áratugarins á aðstæðum sem snertu íbúa á sunnanverðu Vesturlandi sérstaklega. Annars vegar opnun Hvalfjarðarganganna en hins vegar bygging Norðuráls á Grundartanga. Báðar þessar framkvæmdir höfðu mikil og varanleg áhrif á skilyrði atvinnulífs og til búsetu í sveitarfélögunum á Akranesi, Innri-Akraneshreppi, Skilmannahreppi, Hvalfjarðarstrandarhreppi, Leirár- og Melahreppi, Borgarbyggð, Borgarfjarðarsveit og Skorradalshreppi. Þessum breytingum fylgdi m.a. fjölbreytni í atvinnuframboði og stærra atvinnusvæði auk þess sem sveigjanleiki til atvinnusóknar jókst. Fasteignaverð á svæðinu hækkaði og krafa um aukna opinbera þjónustu jókst svo nokkur dæmi séu nefnd. Sveitarfélögin hafa af þeim sökum orðið vinsælli og álitlegri til búsetu en þau voru áður.
Starfsemi Norðuráls á Grundartanga hefur frá stofnun fyrirtækisins átt ríkan þátt í að treysta atvinnu og búsetu á svæðinu í nágrannabyggðum verksmiðjunnar. Þrátt fyrir að einungis tveimur áföngum í stækkun Norðuráls sé lokið af (líklega) fjórum er óhætt að segja að Norðurál sé nú þegar einn helsti atvinnurekandi á svæðinu. Færa má fyrir því rök að staðsetning verksmiðjunnar á Grundartanga hafi leitt af sér fjölgun íbúa, dregið verulega úr atvinnuleysi og leitt til þess að ýmis þjónustutengd starfsemi hafi dafnað og laun hafa stigið. Þetta hefur m.a. leitt af sér aukna eftirspurn eftir vöru og þjónustu.
Norðurál á Grundartanga hefur frá stofnun fyrirtækisins verið eftirsóttur og fjölmennur vinnustaður og er einn af þeim stærstu hér á landi utan höfuðborgarsvæðisins. Þar starfa rösklega 200 manns í dag en áætlanir gera ráð fyrir að þeim muni fjölga í 350 eftir næstu stækkun verksmiðjunnar í 180 þúsund tonna ársframleiðslu. Þar við bætist að Norðurál keypti á sl. ári þjónustu af tæplega 70 aðilum á Vesturlandi fyrir um 330 milljónir króna. Um 85% starfsmanna álversins búa á Vesturlandi. Þar af á Akranesi um 63%, í Borgarnesi 9% og í öðrum nágrannasveitarfélögunum 13%. Fram hefur komið að stefna fyrirtækisins sé að leggja enn aukna áherslu á búsetu starfsmanna í næsta nágrenni verksmiðjunnar.
Hjá fyrirtækinu bjóðast sérhæfð störf sem krefjast sértækrar þjálfunar. Kröfur eru gjarnan gerðar um iðn- og tæknimenntun en einnig fer mikil starfsþjálfun fram á vinnustaðnum þannig að minna menntað fólk fær þar tækifæri til að sérhæfa sig og hækka þar með laun sín. Af þessu leiðir að á Vesturlandi greiðir stóriðjan hæstu meðallaun af öllum starfsgreinum í landi og eru einungis fiskveiðar ofar á blaði. Árið 2001 greiddi Norðurál samtals um einn milljarð króna í laun og launatengd gjöld. Miðað við að 85% þessara starfa eru í höndum íbúa svæðisins má ljóst vera að stækkun vinnustaðarins um 200 störf, auk 300 afleiddra starfa af þeim sökum á svæðinu, mun hafa mikla þýðingu fyrir sveitarfélögin á sunnanverðu Vesturlandi.
Ef áætlanir um stækkanir Norðuráls ganga eftir má gera ráð fyrir því að árið 2008 hafi fyrirtækið fjárfest fyrir um 80 milljarða króna á Grundartanga. Fjárfesting af slíkri stærðargráðu hér á svæðinu hlýtur að gefa sveitarfélögunum sem mestra hagsmuna eiga að gæta tilefni til að þrýsta á um áframhaldandi uppbyggingu fyrirtækisins ekki síst þegar litið er til þeirra jákvæðu áhrifa sem fyrirtækið hefur leitt af sér í dag.
Ýmis önnur jákvæð áhrif álvers á Grundartanga er rétt að benda á og skulu hér nefnd nokkur þeirra:
1. Nauðsynleg stækkun hafnar og hafnaraðstöðu gefur möguleika á útvíkkun annarrar hafnsækinnar starfsemi á Grundartanga.
2. Fyrir hvert eitt starf við stóriðju er áætlað að 1,5 störf verði til á atvinnusvæðinu.
3. Verslun og þjónusta á svæðinu eflist.
4. Samstarf Norðuráls og Fjölbrautaskóla Vesturlands um stóriðjubraut við skólann.
5. Fasteignaverð er í námunda við markaðsverð á höfuðborgarsvæðinu.
Um allt þetta eru sveitarstjórnir á sunnanverðu Vesturlandi meðvitaðar og leggja því ríka áherslu á að greitt verði fyrir því að Norðurál á Grundartanga fái alla þá fyrirgreiðslu sem nauðsynleg er af hálfu hins opinbera sem og sveitarfélaganna, enda þjóðhagslega jákvæð áhrif fyrirtækisins bæði í nær- og fjærumhverfi verksmiðjunnar.

Share: