Ályktun um Landbúnaðarháskóla Íslands

mars 27, 2014
Á fundi byggðarráðs Borgarbyggðar í morgun var m.a. rætt um málefni Landbúnaðarháskóla Íslands og svohljóðandi ályktun samþykkt samhljóða:
 
“Byggðaráð Borgarbyggðar ítrekar þá afstöðu sína að það sé farsælast fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands að vera áfram sjálfstæður skóli. Í kjölfar þess að mennta- og menningarmálaráðherra tilkynnti fyrir skömmu að ekki kæmi til sameiningar LBHÍ og HÍ hafa ráðherra og yfirstjórn skólans farið mikinn á opinberum vettvangi og sakað sveitarstjórn Borgarbyggðar, ásamt öðrum þeim sem hafa varað við þessari sameiningu, um þröngsýni og afturhaldssemi svo einhver dæmi séu nefnd.

Í umræðu um sameiningu skólanna, reyndar á seinni stigum, kom fram að ráðherra væri tilbúinn til að leggja verulegt fjármagn til uppbyggingar á Hvanneyri og Reykjum. Það er ánægjulegt að ráðherra meti að til sé fjármagn til uppbyggingar á háskólum og því trúum við ekki öðru en að ráðherra leggi Landbúnaðarháskólanum til aukið fjármagn til reksturs, samanber þær upphæðir sem nefndar hafa verið. Byggðarráð Borgarbyggðar lýsir jafnframt yfir vonbrigðum með að ráðherra hyggist gera skólanum að greiða inn á uppsafnaðann hala sem til er kominn sökum of lágra framlaga til skólans undanfarin ár eins og stjórnendur skólans hafa ítrekað bent stjórnvöldum á undanfarin ár. Stjórnvöld hafa ekki staðið við fögur fyrirheit um að losa skólann undan skuldahala sem fylgt hefur skólanum allt frá stofnun hans árið 2005. Í raun má segja að það sé aðdáunarvert hvernig rektor og starfsmönnum skólans hefur tekist að halda á spöðunum þessi erfiðu ár. Þrátt fyrir fjársvelti hafa gæðaúttektir sýnt að faglegt starf skólans hefur verið gott, þökk sé fyrst og fremst hæfu starfsfólki.

Byggðarráð Borgarbyggðar lýsir sig reiðubúið til að vinna af krafti að uppbyggingu Landbúnaðarháskóla Íslands með öllum þeim aðilum sem láta sig vöxt og viðgang skólans varða og bindur vonir við að nýskipað háskólaráð leiti eftir samstarfi og samvinnu við nærsamfélagið í þeirri baráttu sem framundan er til að tryggja aukið fjármagn til reksturs sjálfstæðs Landbúnaðarháskóla á Hvanneyri.”
 

Share: