Ályktun um aðalstöð lögreglustjóra á Vesturlandi

júní 19, 2014
Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 12. júní s.l. var samþykkt svohljóðandi ályktun um aðalstöð lögreglustjóra á Vesturlandi:
 
“Í umræðuskjali sem innanríkisráðuneytið hefur gefið út um breytingar á lögreglulögum og nýjum umdæmum lögreglu kemur fram að aðalstöð lögreglustjóra á Vesturlandi verði í Borgarnesi.
Sveitarstjórn Borgarbyggðar tekur eindregið undir þessa tillögu og fagnar því að fyrirhugað er að aðalstöð lögreglustjóra verði í Borgarnesi.
Rökin fyrir staðsetningu lögreglustjóra Vesturlands í Borgarnesi eru skýr og þar skiptir auðvitað mestu miðlægni Borgarness miðað við nýtt sameinað umdæmi. Við aðallögreglustöðina verður staðin sólarhringsvakt, þjóðvegur eitt liggur í gegnum Borgarbyggð og uppspretta margra mála tengist umferðinni við veginn og síaukinn ferðamennsku innlendra og erlendra ferðamanna og fjölda sumarhúsahverfa í Borgarfirði auk dulinnar búsetu á svæðinu. Nauðsynlegt er að styrkja enn frekar löggæslu á vegum innan hins nýja umdæmis þar sem umferðin er mest.
Um árabil hefur Héraðsdómur Vesturlands verið staðsettur í Borgarnesi, sem hefur gefist vel og verið sátt um meðal íbúa Vesturlands. Því fylgja ýmsir kostir að staðsetja aðalstöð lögreglu og héraðsdóm á sama stað.
Með staðsetningu aðallögreglustöðvarinnar í Borgarnesi verður tryggt að aðstoð berist öðrum lögreglustöðvum í umdæminu með sem skjótustum hætti. Þannig verður öryggi íbúanna og annarra sem í umdæminu dveljast best tryggt.”
 

Share: