Alnafna og barnabarn fer með aðalhlutverk

apríl 7, 2007
Leikritið Ása í ástandinu verður frumsýnt í Þinghamri í Stafholtstungum í kvöld. Leikritið er eftir Andreu Davíðsdóttur frá Arnbjargarlæk í Þverárhlíð og er sett upp í tilefni af 30 ára afmæli leikdeildar Ungmennafélags Stafholtstungna. Svo skemmtilega vill til að það er alnafna Andreu og barnabarn sem fer með aðalhlutverkið, Andrea Davíðsdóttir á Hvassafelli. Með önnur hlutverk fara Þorbjörn Oddsson Háafelli, Birna G. Konráðsdóttir Borgum, Barbara Guðbjartsdóttir Kaðalstöðum og Ragnar Pétursson Bifröst. Leikstjóri er Margrét Ákadóttir
Leikurinn gerist á stríðsárunum þegar sveitafólk þyrpist til bæjarins til að upplifa nýja hluti. Meðal þeirra er Ása, stelpa úr sveit sem ræður sig í vist hjá stórkaupmannsfjölskyldu í Reykjavík. Við henni blasir allt annað líf heldur en það sem hún þekkir úr sveitinni og ýmsar freistingar liggja í leyni. Inn í leikritið er fléttað lögum sem voru vinsæl á þessum tíma og eru textar sumra þeirra aðlagaðir því efni sem fjallað er um.
Höfundurinn, Andrea Davíðsdóttir var sem sagt Borgfirðingur, fædd á Arnbjargarlæk í Þverárhlíð árið 1916. Henni var margt til lista lagt á ritsviðinu og skrifaði meðal annars leikrit til sýninga á innansveitar skemmtunum. Talið er að umrætt leikrit sé skrifað í kringum 1945 og þá voru afar fáar konur á Íslandi að skrifa leikrit, svo vitað sé um. Margar þeirra hafa án efa haft það eins og Andrea að semja eitthvað sem ekki var gefið út, en af útgefnum leikritum eru heimildir um verk eftir Kristínu Sigfúsdóttur og Torfhildi Hólm sem sömdu og gáfu út leikrit fyrir 1945. Andrea Davíðsdóttir í Norðtungu hefur því líklega verið meðal fárra kvenna á Íslandi sem sömdu leikrit á þessum tíma.
Eins og áður sagði verður leikritið frumsýnt í kvöld laugardaginn 7.apríl kl. 20:30.
Aðrar sýningar sem dagsettar hafa verið eru þessar:
2.Sýning annan í páskum 9.apríl kl.15:00
3.Sýning annan í páskum9. apríl kl.20:30
4.Sýning þriðjudaginn 10 .apríl kl.20:30
5.Sýning fimmtudaginn 12.apríl kl.20:30
Miðaverð fyrir fullorðna kr. 1.800 ; 14 ára og yngri kr. 800
Miðapantanir í síma:
4351288/ 8684245 Dísa ; 4351343/ 8951343 Vala og
4351355/ 8241988 Erla
 
Ljósmynd með fréttinni var tekin þegar leikarar voru á ferð í Hyrnutorgi í Borgarnesi fyrir nokkru til að kynna uppfærsluna. Frá vinstri: Andrea Davíðsdóttir og Barbara Guðbjartsdóttir.
 
 

Share: