Síðastliðinn laugardag, 30. ágúst, var haldið áheita- og styrktarmaraþon til styrktar Sverri Heiðari Júlíussyni og fjölskyldu hans. Sjá hér auglýsinguna um maraþonið.
Maraþonið hófst kl. 06:00 um morguninn og stóð til miðnættis.
Alls skráðu sig um 63 lið til leiks sem í voru samtals 189 leikmenn. Þessi lið léku á móti Maraþonliðinu sem var skipað 13 leikmönnum á aldrinum 13 – 17 ára sem skiptust á að vera inni á vellinum.
Maraþonliðið skoraði alls 1276 körfur á þessum 18 tímum. Gestirnir skoruðu alls 906 körfur. Meðal þeirra liða sem tóku þátt voru: Úrvalsdeild Skallgríms, starfsmenn í ráðhúsi Borgarbyggðar, stjórn Ungmennafélags Íslands, búfræðiárgangar 1994 og 1989, starfsmenn rannsóknarstofu LBHÍ, starfsmenn leikskóla Andabæjar, doktorsnemar LBHÍ, Skálpastaðbúið ofl. Fullt var út að dyrum í íþróttahúsinu á Hvanneyri allan tímann og feikileg stemning allt til miðnættis og er það ekki síst að þakka þeim vaska hópi ungmenna sem myndaði maraþonliðið og spilaði með allan tímann og lét engan bilbug á sér finna.
Tekið er á móti frjálsum framlögum inn á reikning stöfnunarinnar alla þessa viku. Reikningsnúmerið er gefið upp í auglýsingunni um maraþonið hér fyrir ofan.
Myndir: Þórhallur Teitsson og Magnús Magnússon.