Það var haldið upp á afmæli leikskólans í dag, föstudaginn 9. október, en þann 11. október n.k. eru 42 ár síðan Klettaborg tók til starfa sem tveggja deilda leikskóli. Síðan þá hefur tvisvar sinnum verið byggt við skólann, árið 1991 og 2004.
Á krakkafundi fyrr í haust var ákveðið að halda upp á afmælið með því að hafa búningadag, diskótek á útileiksvæðinu og hamborgarapartý í hádeginu. Að auki kom vináttubangsinn Blær óvænt aftur eftir sumarfrí og færði nýjum börnum lítinn Blæ. Nú eiga öll börnin í leikskólanum lítinn Blæ til að nota í leikskólastarfinu. Blær leggur m.a. áherslu á vináttu, jákvæð samskipti og góðan skólabrag.