Afhending á skýrslu um skoðun á innra eftirliti og fjárhagskerfi Borgarbyggðar

júlí 21, 2021
Featured image for “Afhending á skýrslu um skoðun á innra eftirliti og fjárhagskerfi Borgarbyggðar”

Í janúar 2021 barst sveitarstjóra skýrsla, merkt trúnaðarmál frá KMPG sem fjallaði um skoðun á innra eftirliti og fjárhagskerfi Borgarbyggðar. Í umræddri skýrslu er að finna athugasemdir og ábendingar, í sumum tilvikum er um að ræða tilmæli um það sem mætti lagfæra en einnig er að finna ábendingar sem nauðsynlegt er að ráðast í strax. Athugasemdirnar eru flokkaðar í þrjú stig , til að skilgreina forgangsröðun verkefna og alvarleika þeirra.

Sveitarfélaginu barst beiðni um afhendingu á skýrslunni og var henni hafnað þar sem um er að ræða vinnuskjal frá endurskoðanda. Vinnuskjalið er leið fyrir endurskoðendur til að geta komið upplýsingum á framfæri við stjórnendur um hvað þyrfti að aðhafast vegna innri endurskoðunar eða fjárhagskerfi. Skýrslan er einnig hreinskiptin samskiptaleið frá endurskoðendum til stjórnenda þar sem ábendingar varða stundum einstaka starfsfólk og þar með viðkvæmar persónuupplýsingar. Þrátt fyrir að ábendingarnar í þessari skýrslu hafi ekki varðað einstaka starfsfólk var það formsins vegna og samskiptaleiðarinnar sem litið var á skýrsluna sem trúnaðarskjal og vinnuskjal og ætti því ekki að birtast opinberleg í skilningi 8. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Í endurskoðunarskýrslu með ársreikningi sveitarfélagsins koma fram ábendingar úr skýrslunni sem varða atriði þar sem nauðsynlegt er að bæta innra eftirlit vegna verulegra veikleika eða samansafn veikleika sem og þær ábendingar sem varða veikleika sem þarf að taka á og eru viðvarandi.

Ákvörðun sveitarfélagsins um að hafna afhendingu skýrslunnar var kærð til úrskurðarnefnd um upplýsingamál á grundvelli þess að sveitarfélagið væri að neita íbúum aðgang að fjárhagslegum upplýsingum. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var að skýrslan innihéldi ekki viðkvæmar persónuupplýsingar og því bæri Borgarbyggð að veita kæranda aðgang að skýrslunni. Borgarbyggð hefur framfylgt niðurstöðunni en taldi rétt að neita upplýsingunum í upphafi máls, enda er nauðsynlegt fyrir endurskoðendur að hafa hreinskipta samskiptaleið til að koma ábendingum til stjórnenda þar sem upplýsingarnar geta stundum flokkast sem viðkvæmar persónuupplýsingar, þá sérstaklega þegar vinnustaðir eru litlir.

Skýrslan um skoðun á innra eftirliti og fjárhagskerfi ársins 2020 hefur núna verið afhent kæranda.

 


Share: