Áætlað að byrja lagningu þriggja fasa rafmagns á Mýrar í maí

apríl 12, 2019
Featured image for “Áætlað að byrja lagningu þriggja fasa rafmagns á Mýrar í maí”

Fimmtudaginn 11. apríl síðastliðinn fór fram síðasti fundur vinnuhóps sem skipaður var af Borgarbyggð til að fylgja eftir verkefni um lagningu þriggja fasa rafmagns á Mýrarnar. Hópurinn var skipaður þannig,  að Lilja Björg Ágústsdóttir, forseti sveitarstjórnar í Borgarbyggð var formaður hópsins en aðrir fulltrúar voru Pétur Þórðarson forstjóri RARIK, Ingvi Már Pálsson, skrifstofustjóri atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Hólmfríður Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá samgöngu og sveitarstjórnarráðuneytinu, Halldór Jónas Gunnlaugsson frá Búnaðarfélagi Mýrarmanna og Guðmundur Daníelsson, ráðgjafi. Stafsmaður hópsins var Gunnlaugur Júlíusson, sveitarstjóri í Borgarbyggð.

Hópurinn var skipaður í janúar fyrr á þessu ári í kjölfar þess að Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, ferðamála-iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafði lýst yfir vilja til að flýta áformum um þrífösun rafmagns á Mýrunum og fylgdi því eftir með minnisblaði sem var lagt fyrir ríkisstjórnina 6. febrúar síðastliðinn. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar fyrir árin 2020 – 2024 er tekið mið af framangreindu og áhersla lögð á að ljúka þrífösun á Mýrum og í Skaftárhreppi.

Gert er ráð fyrir 80 milljónum í fimm ára fjármálaáætlun, yfir þriggja ára skeið sem framlag frá ríkinu í formi svokallaðs flýtigjalds. Með tilkomu þeirra fjármuna er mögulegt að nýta samlegðaráhrif með lagningu ljósleiðara í Borgarbyggð og leggja þriggja fasa rafmagn og ljósleiðara um Mýrarnar á árunum 2019 – 2022. Samkvæmt verkáætlun RARIK er svæðinu skipt upp í þrjá aðskilda verkhluta sem koma til framkvæmda á þremur árum. Í eldri verkáætlun RARIK var ekki gert ráð fyrir þessum framkvæmdum fyrr en um 2035.

Vinnuhópurinn hefur nú lokið störfum en á síðasta fundi hópsins afhenti Pétur Þórðarson forstjóri RARIK, fulltrúa búnaðarfélags Mýrarmanna verkáætlun og Ingvi Már Pálsson skrifstofustjóri atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins afhenti honum skjöl sem staðfesta fjármuni ríkisvaldsins til verkefnisins. Nú tekur við sú vinna að klára að fullhanna lagnakerfi ljósleiðara á Mýrunum og mun Guðmundur Daníelsson halda utan um þá vinnu í góðu samstarfi við Halldór, fulltrúa Búnaðarfélagsins og fulltrúa RARIK.

Almenn ánægja var meðal hópsmeðlima um samstarfið enda hefur árangurinn ekki látið á sér standa og áætlað er að hefja framkvæmdir á Lambastöðum í byrjun maí á þessu ári. 

Á myndinni eru: Ingvi Már Pálsson, skrifstofustjóri atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins, Pétur Þórðarson, aðstoðarforstjóri RARIK og Halldór Jónas Gunnlaugsson, fulltrúi Búnaðarfélags Mýrarmanna. 


Share: